- Kjúklingurinn
- 4 kjúklingabringur
- 2 tsk paprikuduft
- salt og pipar
- 10 msk smjör
- hálft búnt timían, ferskt (eða slatti af þurkuðu)
- 6-8 hvítlauksrif, smátt söxuð
- 500 ml hvítvín
- 3-4 lúkur spínat, gróflega saxað
- Kartöflurnar
- 1 sætkartafla
- 1 msk ólífuolía
- 4-5 hvítlauksrif, smátt söxuð
- 1 tsk basilikum
- Salt
- Pipar
Um síðustu helgi var ég á Hellissandi, eins og reyndar flestar helgar þessa dagana, hjá kærustunni. Ég sá hana reyndar aðallegast þegar hún var að fara að vinna eða þegar hún kom úr vinnu því það var meira en nóg að gera hjá þeim á Kaffi Sif þessa helgina. En á sunnudagskvöldinu náði ég að elda smá handa þessari elsku og bauð ég henni þá upp á kjúklingabringur í hvítvínssósu og hafði ofnbakaðar sætkartöflur og salat með þessu.
Ég byrjaði á því að græja kartöflurnar. Ég hreinsaði hýðið af þeim og skar þær svo niður í litla bita, u.þ.b. 1 sm á kannt og setti það svo í skál. Ég setti svo ólífuolíuna yfir kartöflurnar og svo allt krydd þar á eftir og hrærði þessu svo vel saman. Þetta fór svo allt saman í eldfast mót og inn í 200° heitan ofn á meðan kjúllinn var undirbúinn og eldaður.
Þegar kartöflurnar voru komnar í ofninn fór ég að græja kjúklinginn. Ég tók bringurnar og kryddaði þær með papriku, salti og pipar og nuddaði kryddið svolítið vel í kjötið. Ég setti svo u.þ.b. 1 matskeið af smjöri á pönnu og steikti bringurnar í 3 mínútur á hvorri hlið eða þar til þær voru farnar að brúnast aðeins. Restin af smjörinu fór þá á pönnuna ásamt hvítlauknum og tímíaninu (sem átti að vera ferskt en þar sem ég fékk ekki svoleiðis þá notaði ég bara þurrkað) og hrærði þessu vel saman.
Þá var komið að því að sulla hvítvíninu yfir allt saman og leyfa þessu að malla í hvítvíninu í alla vega 20 mínútur. Ég leyfði þessu reyndar að malla í alveg 30 mínútur til að leyfa sósunni að sjóða aðeins niður. Það er líka hægt að setja aðeins minna af hvítvíninu ef menn vilja reyna að hafa sósuna aðeins þykkari.
Alveg í restina bragðaði ég sósuna til með hvítlauksdufti og pipar og svo borðuðum við þetta með bestu list með kartöflunum og salati sem ég hafði hent saman.
Skildu eftir svar