- 1 msk ólívuolía
- 1 laukur, saxaður
- 2 hvítlauksgeirar, niðursneiddir
- 1 rauður chilli, saxaður
- cayenne pipar
- Reykt paprika
- 1 dós tómatar
- 1 kg nýjar kartöflur í helmingum eða fjórðungum
- 250 g chorizo
- 1 bréf beikon
- 1 paprika í stórum bitum
Eftir að hafa heyrt kærustuna mína tala þannig um Patatas Bravas að ég var nánast farinn að slefa af löngun til að prófa þennan spænska kartöflurétt ákvað ég að fara að leita að uppskriftum. Ég fann nokkrar mjög áhugaverðar en þar sem ég ætlaði að hafa þetta sem kvöldmat vildi ég hafa eitthvað meira en bara kartöflur og tómata í réttinum. Ég fann því þessa líka fínu uppskrift með chorizo og bætti svo við hana beikoni og papriku til að gera hana enn matarmeiri.
Það sem ég gerði fyrst var að saxa niður laukinn, hvítlaukinn og chillíið. Því næst hitaði ég olíuna í potti og steikti svo það sem ég hafði saxað niður þar til laukurinn var farinn að mýkjast. Þá kryddaði ég þetta með cayanne og reyktu paprikunni og hrærði svo tómötunum saman við. Þetta fékk svo að malla í 20 mínútur eða svo.
Á meðan sósan mallaði létt sauð ég kartöflurnar, bara í svona 10 mín í mesta lagi. Það varð meira að segja heldur mikið hjá mér því kartöflurnar voru það mjölmiklar að þær fóru svolítið í það að detta í sundur þegar þær fóru svo á pönnuna. Beikonið steikti ég á pönnu og reyndi að fá það pínu crispy (en það tókst ekki nógu vel hjá mér útaf óþolinmæði) og svo bætti ég paprikunni og chorizo við. Þegar kartöflurnar voru búnar að sjóða setti ég þær á pönnuna líka og meiningin var að leyfa þessu að brasast aðeins þannig að þær yrði líka pínu crispy. Það tókst hins vegar ekki heldur nógu vel þar sem þær fóru strax að molna niður. En ég lét það ekki á mig fá og skellti bara sósunni út á allt saman og úr varð alveg ljómandi góður matur þó hann væri ekki alveg eins og hann átti að vera.
Skildu eftir svar