Nú ætla ég alveg blygðunarlaust að misnota aðstöðu mína og auglýsa aðeins upp hinn stórgóða veitingastað Kaffi Sif á Hellissandi. Þetta er lítill og sætur veitingastaður á besta stað undir Jökli með einfaldan en góðan matseðil. Þarna er hægt að fá alveg fyrirtaks fiskisúpu, geggjaða grænmetissúpu og pottþéttan plokkfisk. Og fyrir þá sem vilja hafa smá kjöt á beinunum er hægt að fá beinlausa kjúklingabringu og franskar, grillaða skinkusamloku eða hina margrómuðu drekasamloku en það er of langt mál að telja upp allt sem á henni er (en það er alla vega beikon á henni). Einnig verður fljótlega hægt að fá crepes hjá henni Sif.
Svo þegar búið er að gæða sér á þessum fyrir gæðaréttum er hægt að fá sér köku og kaffi í eftirrétt og hafa menn þá val um eplapæ, franska súkkulaðiköku sem maður hreinlega slefar yfir, marenstertu og svo er hægt að fá vöfflur með rjóma.
Allur matur á Kaffi Sif er eldaður frá grunni á staðnum og er hann því eins fullkomlega ferskur og mögulegt er. Ég hvet því alla sem eru á ferðinni um Snæfellsnes, hvort sem um er að ræða sunnudagsrúntinn eða lengri ferðir, að kíkja við hjá Sif og fá sér kjarngóða máltíð áður en lengra er haldið.
Skildu eftir svar