- 1 kg súpukjöt
- 1,8 l vatn
- 1 msk salt
- 1-2 msk súpujurtir
- ½ laukur, smátt saxaður
- 500 gr rófur
- 500 gr kartöflur
- 250 gr gulrætur
- 100 gr hvítkál
- Pipar
- 1-2 tsk hvítlauksmauk
- 1-2 tsk engifer mauk
- 1-2 tsk chilli mauk
- ½ - 1 dl hrísgrjón
Íslensk kjötsúpa er í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er fátt betra, þegar maður er úti að hjóla í lengri ferðum, að stoppa einhverstaðar þar sem hægt er að fá kjötsúpu. Sjaldan hefur það verið betra en þegar ég keyrði frá Seyðisfirði til Akureyrar sumarið 2008. Ég hafði ákveðið að taka daginn snemma til að losna við rigninguna sem var spáð seinni partinn en að sjálfsögðu fór að rigna um leið og ég fór út á hjólið. Ég var svo í grenjandi rigningu alla leiðina og þegar ég var kominn á Mývatn var ég orðinn frekar blautur og kaldur. Ég stoppaði því þar og fékk mér einhverja þá albestu kjötsúpu sem ég hef fengið og þó svo að ég hafi kannski fengið bragðbetri súpu síðan þá var þörfin svo mikil þarna að ég naut hennar til hins ítrasta.
Það var hins vegar ekki fyrr en fyrir 2 árum síðan sem ég eldaði kjötsúpu sjálfur í fyrsta sinn. Ég verð nú að segja það að heimagerð kjötsúpa er það allra besta. Ekkert er þó svo gott að ekki megi bæta það. Fyrst prófaði ég að nota hrossakjöt og ýmislegt auka grænmeti í svipaða súpu. En svo datt mér í hug hvort að það væri ekki sniðugt að setja hvítlauk og engifer í súpuna. Ég lét slag standa næst þegar ég eldaði kjötsúpu og prófaði þetta og fyrst ég var byrjaður að setja eitthvað nýtt í súpuna þá greip ég líka krukku af sterku chilli mauki og skellti smá af því út í líka. Þetta kom svona líka hrikalega vel út að ég bara varð að elda súpuna aftur og taka þá myndir fyrir matargatið.
Og þá að því hvernig ég gerði þetta. Þetta er svo sem bara hefðbundin kjötsúpa í grunninn, uppskrift úr stóru matarbókinni hennar Nönnu Rögnvaldar. Ég byrja s.s. á því að fituhreinsa kjötið og set það í pott ásamt vatninu og hita það svo að suðu. Froðan sem kemur á meðan suðan er að koma upp er fleytt ofan af og svo er saltinu, súpujurtunum, lauknum og hrísgrjónunum hrært saman við. Hrísgrjónin set ég til að þykkja súpuna en ef þið viljið hafa hana þynnri þá getið þið minnkað magnið af hrísgrjónum eða jafnvel sleppt þeim alveg.Þetta fær svo að sjóða í um 40 mínútur. Á meðan kjötið sýður eru rófurnar, kartöflurnar og gulræturnar afhýddar og skornar í hæfilega stóra bita. Grænmetið er svo sett út í ásamt engiferinu, hvítlauknum og chilli og súpunni leyft að malla í 15 mínútur í viðbót. Kálið er næst skorið í mjóar ræmur og sett út í og herlegheitin fá svo að sjóða í 5-10 mínútur í viðbót eða þar til grænmetið er allt soðið í gegn. Að lokum er súpan svo smökkuð til með salti og pipar.
Mín reynsla af svona súpum er að þær verða bara betri ef þær fá að sjóða svolítið ríflega þannig að það er allt í lagi að leyfa súpunni að malla alveg 20-30 mínútur framyfir tímann sem gefinn er upp. Varðandi chilli maukið þá er best að setja bara hæfilega mikið af því miðað við hvað menn vilja leyfa chilli bragðinu að ná mikið í gegn. Ef það er bara notuð 1 tsk þá nær það bara rétt aðeins í gegn en mér finnst betra að setja 2 tsk og finna aðeins meira fyrir hitanum.
Skildu eftir svar