- kjötið
- 3 dl gróft salt
- 2 msk sykur
- 500 gr lambafile, fitu- og sinalaus
- 1 msk rósmarín
- 1 msk timían
- 1 msk basil
- 1 msk rósapipar
- ½ msk dillfræ
- ½ msk sinnepsfræ
- Sósan
- 1 msk dijon sinnep
- 1 tsk worcestershiresósa
- 1 msk hunang
- 1 msk balsamedik
- 2 msk rauðrófusafi
- salt
- nýmalaður pipar
- 1½ dl olía
- Brauðið:
- 500 gr hveiti
- 1½ tsk salt
- 7 gr þurrger
- 325 ml volgt vatn
- 2 msk ólívuolía
- 1 rauðlaukur
- handfylli af rósmarín
- 1 tsk sjávarsalt (má sleppa)
Að venju hittist vinahópurinn á gamlárskvöld og átti góða kvöldstund saman með góðum mat og drykk. Samkvæmt hefðinni sá ég um forréttinn en þetta er ein af fáum hefðum sem ég vil helst ekki brjóta. Ég er nefninlega yfirleitt mikill fylgismaður þess að hefðir séu til að brjóta þær en þetta er undantekningin sem sannar regluna. Til að byrja með var ég alltaf með einhvern fiskrétt í forrétt sem mótvægi við kalkúninn sem er alltaf í aðalrétt en í seinni tíð hef ég brotið þá hefð (enda hefðir til að brjóta þær) og verið með einhverskonar kjötrétti. Þannig hef ég t.d. verið með grafna og reykta andabringu og nú var það grafið lambafile sem varð fyrir valinu. Uppskriftina fann ég á þeirri ágætu síðu lambakjöt.is og notaði ég hana svo til óbreytta. Ég fann svo uppskrift að foccacia brauði með rauðlauk og rósmarín sem mér fannst upplagt að hafa með þessu.
Þó svo að brauðið hafi í raun verið það sem ég gerði síðast þegar ég var að undirbúa forréttinn ætla ég að byrja á að segja frá því þar sem það er fyrirferðamest í lýsingunni. Ég setti hveitið og saltið í skál og blandaði því saman. Næst hrærði ég gerinn út í volgt vatn og bætti því saman við hveitið ásamt olíunni og hrærði þessu saman. Þegar vökvinn var að mestu blandaður saman við hveitið fór ég að hnoða deigið í skálinni þar til allt var komið saman í góða kúlu. Kúluna setti ég svo á borðið og hnoðaði deigið svo í c.a. 10 mínútur til að koma sem mestu lofti í það. Næst setti ég deigið í olíuborna skál og huldi hana með sellófan og leyfði þessu að hefast í u.þ.b. klukkutíma eða þar til það hafði tvöfaldast að stærð. Næsta skref var svo að fletja deigið á bökunarplötu þar til það var orðið um 20×30 cm að stærð og huldi það svo með viskastykki og leyfði því að hefast þar til það hafði risið um helming til viðbótar eða í um 30-40 mínútur. Þegar deigið var búið að hefast í seinna skiptið pressaði ég í það með þumlinum á nokkrum stöðum til að búa til holur í brauðið. Ég stráði svo rauðlauknum og rósmaríninu. Að lokum sullaði ég smá ólífuolíu yfir brauðið og ef þið notið saltið þá færi það yfir olíuna. Brauðið bakaði ég svo í 180° ofni (160° ef þið eruð með blástursofn) í 20-30 mínútur eða þar til það var orðið fallega gullið að ofan.
Og nú ætla ég að fara út í það sem tók lengstan tíman, lambakjötið. Fyrsta skrefið er að blanda saman saltinu og sykrinum og hylja lambakjötið með blöndunni. Þetta lét ég standa við stofuhita í um 3,5-4 klst. og svo skolaði ég saltið af kjötinu og þerraði það aðeins. Kryddinu blandaði ég svo öllu saman í skál og velti kjötinu upp úr því áður en ég vafði því í sellófan. Þetta fékk svo að liggja í ískápnum hjá mér í 3 sólahringa en ef tíminn er knappur þá er nóg að láta þetta liggja yfir nótt.
Að lokum er það sósan. Hún er í raun sára einföld en ég blandaði bara öllu nema olíunni saman í skál og hellti svo olíunni í mjórri bunu saman við og hræði vel í á meðan með písk. Ég smakkaði sósuna svo aðeins til með salti og pipar og smá hunangi.
Eins og alltaf reyni ég svo að setja þetta snyrtilega á disk. Það fór ein brauðsneið á hvern disk og við enda þess smá hrúga af klettasalati og þunnt skorið kjötið þar ofan á. Sósunni var svo hellt yfir kjötið og sitthvoru megin við brauðið til að skreyta diskinn aðeins.
Skildu eftir svar