- Deigið
- 200 gr hveiti
- smá salt
- 110 gr smjör í bitum
- 2-3 msk kalt vatn
- Fylling
- 700 gr epli, afhýdd, og skorin í sneiðar
- 2 msk sítrónusafi
- 110 gr sykur
- 4 - 6 msk kalt vatn
- 1 tsk kanill (má sleppa)
- 25 gr smjör
- Mjólk
Það er einn eftirréttur sem ég leita yfirleitt alltaf eftir þegar ég fer út að borða og það er heit eplabaka með vanilluís (sætti mig líka við góða eplaköku). Það er bara eitthvað við eplabragðið í bland við sykurinn og kanilinn sem hittir svona gjörsamlega í mark hjá mér. Því miður verð ég oftar en ekki fyrir vonbrigðum með það sem er á boðstólnum þar sem þetta eru oftar kökur en bökur og þær eru of oft með of litla áherslu á eplin og kanilinn. Af þessum sökum er ég búinn að vera lengi á leiðinni að prófa að búa mér til eplaböku og var búinn að googla og skoða hinar og þessar uppskriftir áður en ég fann eina sem mér leist vel á. Og svo týndi ég henni. Það var svo um daginn að ég ákvað að gera alvöru eplaböku sem eftirrétt þegar ég átti von á matargest og því leitaði ég aftur á náðir internetsins og fann nýja uppskrift sem mér leist vel á.
Þetta er frekar einföld uppskrift sem ég fann. Eina sem ég gerði var að ég tvöfaldaði hana svo hún passaði betur við mótið sem ég setti hana í en uppskriftin er samt gefin upp einföld hér. Fyrst var að búa til deigið. Ég setti hveitið, smjörið og saltið í stóra skál og nuddaði svo smjörinu saman við hveitið þar til þetta var farið að líkjast fíngerðum brauðmolum. Þetta þarf að gerast svolitið hratt til að koma í veg fyrir að deigið hitni of mikið. Ég bætti svo vatninu saman við og notaði kaldan hníf til að hræra í því þar til deigið fór að loða betur saman og bætti svo við aðeins meira vatni til að þetta yrði ekki of þurrt. Að lokum vafði ég deigið í plast og setti inn í ísskáp þar sem það þarf að hvílast í alla vega 15 mínútur og helst ekki lengur en hálftíma svo það verði ekki of hart.
Meðan deigið beið í ísskápnum fór ég að huga að fyllingunni. Ég setti eplin ásamt sítrónusafanum og vatninu í pott og leyfði þessu að malla þar til eplin fóru að linast. Það þarf samt að passa að eplin verði ekki of lin því það er nauðsynlegt að þau séu pínu stíf undir tönn. Þegar eplin voru orðin mátulega mjúk bætti ég sykrinum og kanilnum saman við og hrærði saman og svo tók ég þetta af hitanum. Ég bætti svo smjörinu saman við og hrærði á meðan það var að bráðna og leyfði þessu svo að kólna.
Næst var röðin komin að því að fara að fletja út deigið. Ég tók rúmlega helmingin af deiginu og flatti út þannig að það passaði ofan í bökumótið sem hjá mér var 26 cm en uppskriftin talar um 13 cm (það er ástæðan fyrir því að ég tvöfaldaði uppskriftina). Passa þarf að deigið nái vel upp á hliðarnar í mótinu. Ég setti svo kalda eplablönduna í mótið og flatti svo restina af deiginu út til að nota sem lok. Til að loka bökunni almennilega braut ég deigið sem stóð upp úr mótinu yfir lokið og þrýsti eins vel á og ég gat án þess að gera gat á deigið. Að endingu smurði ég mjólkinni ofan á bökuna til að fá fallega gullna skorpu á bökuna.
Bakan fór svo inn í 220° heitan ofn og var þar í rólegheitunum í 20-25 mínútur eða lengur eftir þörfum. Það er síðan alveg toppurinn, eins og ég sagði í upphafi, að borða þessa böku með vænum skammti af vanilluís þannig að maður má ekki hafa of miklar áhyggjur af línunum þegar maður fær sér svona, nema auðvitað að þú, lesandi kær, sért sammála mér í því að línur geta alveg verið bogadregnar.
Skildu eftir svar