- 2 kjúklingabringur
- 1 laukur
- 1 paprika
- 1 tsk hvítlauksmauk
- 1 tsk engifermauk
- 2 tsk chillimauk
- 2 msk hveiti
- 3-4 gulrætur
- 3-4 sellerýstilkar
- 3 tengingar hænsnakraftur
- Vatn
- Olía til steikingar
- Reykt paprika
- salt og pipar
Um helgina ákvað ég að elda mér kjúklingasúpu. Þetta átti ekki að vera neitt merkileg súpa, bara svona samtýningur úr ísskápnum þar sem ég þurfti að nýta eitt og annað sem ég átti þar. En súpan heppnaðist svona líka ótrúlega vel að ég ákvað að hún ætti skilið að fá færslu, jafnvel þó ég hefði ekki tekið neinar myndir. Í staðinn fær haninn í Slakka að myndskreyta færsluna.
Það sem ég gerði var einfaldlega þetta. Ég skar kjúklinginn niður í litla bita og steikti hann í smá olíu í potti. Grænmetið tók ég á meðan og skar niður í mátulega litla bita. Ég tók svo kjúklinginn úr pottinum og steikti laukinn og paprikuna í smá stund áður en ég setti tvær matskeiðar af hveiti saman við. Hveitið er hugsað til að þykkja súpuna aðeins. Saman við þetta setti ég svo hvítlaukinn, engiferinn og chillimaukið og hrærði því saman við. Þvínæst setti ég gulræturnar og sellerýið ásamt kjúklingnum saman við og svo kjúklingateningana og vatn þannig að það flaut ríflega yfir allt saman.
Þessu leyfði ég svo að malla í um klukkutíma og undir lokin kryddaði ég þetta til með reyktri papriku og salti og pipar. Með þessu hafði ég hvítlauksbrauð sem ég keypti alveg sjálfur í búð þar sem ég hafði ekki nennu til að baka bjórbrauð eins og ég var að spá í.
Skildu eftir svar