- 800g kartöflur
- 200g nautakjöt í þunnum sneiðurm
- 1 laukur
- 400ml vatn
- 4 msk sykur
- 4 msk soyasósa
- 100 gr baunir
Ég eldaði þennan rétt fyrir næstum tveimur mánuðum síðan en einhverra hluta vegna gleymdist alltaf að setja inn færslu fyrir hann. Þetta er japanskur réttur sem ég fann á youtube rásinni hjá ochikeron en hún er oft með mjög áhugaverða japanska rétti. Þar sem mér finnst bæði nautakjöt og kartöflur afskaplega góður matur varð ég bara að prófa þetta og ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með hann. Þetta er líka svona réttur sem verður eiginlega betri við upphitun en ég bætti reyndar við aðeins af soyasósu þegar ég hitaði hann upp. Það má svo eflaust leika sér aðeins með þennan rétt. Þannig væri t.d. alveg örugglega gott að skipta út eitthvað af kartöflunum fyrir rófur. Einnig væri hægt að bæta fleiri kryddum við eins og t.d. að setja svolítið chilli saman við til að fá svolítinn hita í réttinn.
Þó að það séu ekki mörg hráefni í þessum rétti er smá maus að búa hann til. Til að byrja með þarf að flysja kartöflurnar og skera hverja þeirra í 4-6 bita eftir stærð. Þvínæst þarf að Mentori skera þær (sjá tengil) en það er til að koma í veg fyrir að kartöflurnar molni niður við langa suðu. Svo þarf að leggja þær í vatn í um 10 mínútur. Það er gert til að losa í burtu sterkjuna í kartöflunum og til að þær haldi betur litnum. Ef vatnið verður gruggugt þarf að skipta um það. Á meðan kartöflurnar liggja í vatninu er laukurinn skorinn í sneiðar og hvert lag af lauknum svo losað í sundur.
Þegar kartöflurnar eru búnar að vera nógu lengi í vatninu eru þær settar í pott ásamt lauknum. Vatninu er svo hellt yfir og stillt á meðal hita. Þegar suðan hefur komið upp er hitinn lækkaður niður og froðan sem kemur er veidd ofan af. Þetta er síðan látið malla við lágan hita í 3 mínútur eða þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Næst er 2 matskeiðum að sykrinum bætt út í pottinn og pottinum svo hallað aðeins til að leyfa þessu að blandast saman. Það má ALLS ekki hræra í pottinum því þá verða kartöflurnar að grauti. Þetta fær svo að malla í aðrar þrjár mínútur.
Næst er 2 matskeiðum af soyasósunni bætt í pottinn og honum hallað til að blanda þess saman. Og þá er loksins komið að nautakjötinu. Því er bætt í pottinn og passað að dreifa því mátulega. Hitinn er hækkaður upp í meðal hita og froðan fleitt ofan af. Þegar kjötið er allt orðið grátt er afganginum af sykrinum og soyasósunni bætt í pottinn og enn og aftur er honum hallað til að blanda þessu saman og svo er pottinum lokað með Otoshibuta loki (sem er flott japanskt orð yfir það að brjóta saman álpappír þannig að hann passi ofan í pottinn og loki honum því alveg niðri við vökvann) og þessu leyft að malla á meðal hita í 10 mínútur.
Þegar kartöflurnar eru orðnar soðnar í gegn er lokið tekið af pottinum og þessu leyft að sjóða áfram þar til vökvinn er nánast allur uppgufaður. Mjög gott er að bæta á þessum tímapunkti frosnum baunum saman við þannig að þær verði orðnar heitar þegar vökvinn er farinn.
Skildu eftir svar