- Marinering
- 1½ dós hreint jógúrt
- 1 msk sítrónusafi
- 2 tsk cumin
- 1 tsk kanill
- 2 tsk cayenne pipar
- 2 tsk svartur pipar
- 1 tsk engifermauk
- 1 tsk salt
- 3 kjúklingabringur
- grillpinnar
- Sósa
- 1 msk smjör
- 1 hvítlauksgeiri
- 1 jalapeno, fínt saxaður
- 2 tsk cumin
- 2 tsk paprika
- 1 tsk salt
- 1 dós tómatsósa
- 1 peli rjómi
- saxað kóríander til skreitingar
Ég fékk mikla löngun í indverskan mat um daginn enda er það með því betra sem ég fæ, eins og reyndar (mest) allur austurlenskur matur. Það var því ekki um neitt annað að ræða en að fara að leita og eftir smá leit fann ég áhugaverða uppskrift á allrecipes.com. Þetta er síða sem ég leita reglulega í enda mjög fjölbreytt og svo hefur hún þann þægilega fídus að geta skipt úr bandarískum mælieiningum yfir í metrakerfið. Þetta er alls ekki mjög flókin uppskrift þá hráefnalistinn sé langur. Það getur hins vegar tekið smá tíma að útbúa þetta þar sem kjúklingurinn þarf að fá að liggja aðeins í marineringunni, hið minnsta klukkutíma en ég leyfði þessu að marinerast yfir nótt.
Fyrsta skrefið er að útbúa marineringuna. Það er mjög einfalt, maður setur bara allt hráefnið í skál og blandar því saman. Kjúklingurinn er svo skorinn í mátulega litla bita, svona u.þ.b. munnbita, og honum svo bætt í skálina og hrært í þar til kjúklingurinn er þakinn marineringu. Eins og fyrr segir fékk kjúklingurinn að marinerast yfir nótt hjá mér inn í ísskáp.
Þegar kjúklingurinn var búinn að marinerast tók ég hann og þræddi upp á grillpinna. Ég þurfti 6 pinna fyrir allan kjúklinginn þar sem þeir voru tiltölulega stuttir. Ég steikti svo kjúklinginn á grillpönnu á öllum hliðum þar til hann var steiktur í gegn. Það væri líka mjög gott held ég að grilla kjúklinginn á útigrilli og þá helst kolagrilli til að fá almennilegt grillbragð í kjúklinginn.
Þegar kjúklingurinn var tilbúinn setti ég hann til hliðar og fór að græja sósuna. Ég bræddi smjörið í potti og léttsteikti svo hvítlaukinn og jalapenóið í smjörinu. Því næst hrærði ég kryddið saman við og setti svo tómastsósuna og rjómann í pottinn. Þetta fékk að malla á lágum hita í 20 mínútur. Að lokum setti ég kjúklinginn saman við og leyfði þessu að malla í 10 mínútur í viðbót.
Með þessu hafði ég hrísgrjón og naanbrauð og svo skreytti ég allt saman með smá niðurskornu kóríander.
Skildu eftir svar