- 2 msk smjör og olía
- 250 gr laukur í sneiðum
- 500 gr svínahnakki í bitum
- Salt
- 1 tsk paprikuduft
- Kúmenduft á hnífsoddi
- Timjan á hnífsoddi
- 1 gulrót í bitum
- 2 sellerístönglar í bitum
- 1 lítill blaðlaukur í bitum
- 500 gr tómatar í fjórðungum
- 2 paprikur í strimlum
- 750 ml vatn
- 75 ml þurrt hvítvín
Í gegnum tíðina hefur maður alltaf heyrt þá sem eru blankir tala um að þeir lifi bara á núðlum og einhverju svoleiðis. Ég hef hins vegar farið út í það að elda mér einhverjar matarmiklar súpur þegar þrengir að hjá mér. Það er yfirleitt hægt að fá hráefni í góða súpu fyrir tiltölulega lítinn pening og úr því verður súpa sem endist í marga daga. Reyndar þarf ég ekki að vera blankur til að ég eldi mér súpu því á sprengidag elda ég mér alltaf klassíska baunasúpu og svo prófaði ég í fyrra að hrossakjötssúpu sem ég fann upp á út frá þessari klassísku íslensku kjötsúpu.
En það voru blankheit sem gerðu það að verkum í síðustu viku að ég ákvað að fara í súpugerð. Eftir að hafa flett aðeins í stóru matarbókinni hennar Nönnu Rögnvaldsdóttur ákvað ég að prófa þýska gúllassúpu. Það sem heillaði mig við þessa súpu er að það eru ekkert of mörg hráefni í henni og það tekur ekkert of langan tíma að elda hana. Svo fannst mér ágætis tilbreyting að elda súpu úr svínakjöti í staðin fyrir lambakjöt eða kjúkling eins og ég geri vanalega.
Aldrei þessu vant breytti ég uppskriftinni nánast ekki neitt frá því sem var í bókinni fyrir utan það að ég var ekki alveg tilbúinn að fórna heilli hvítvín fyrir þetta smáræði sem þarf í uppskriftina þannig að ég notaði bara svínakjötstening og aðeins meira vatn í staðin.
Og hefst þá fjörið. Ég byrjaði á því að brytja niður allt grænmetið og kjötið. Þvínæst setti ég olíuna og smjörið í pottinn og leyfði því að hitna og setti svo laukinn út í. Laukurinn fékk að baða sig í olíunni þar til hann var orðinn linur og farinn að fá smá lit. Kjötið fór þá út í og fékk að malla í um 10 mínútur og var vel hrært í öllu á meðan. Næst var kryddið sett út í og því leyft að blandast saman við og malla í 1-2 mínútur. Grænmetið og vatnið fór næst í pottinn og suðunni leyft að koma upp. Þessu var svo leyft að malla við vægan hita undir loki í 1 klst.
Eftir klukkutíma hefði hvítvíninu verið bætt við, ef ég hefði verið með svoleiðis, og því leyft að sjóða í smá stund og súpan svo smökkuð til með salti og pipar. Með þessu hafði ég bara ristað brauð með smjöri og hvítlaukssalti en fyrir ævintýragjarna væri mjög sniðugt að baka eitthvað gott brauð, t.d. bjórbrauð eins og ég hafði með laxinum um síðustu áramót.
Skildu eftir svar