- ½ kg hakk
- 1 laukur
- 1 rauð paprika
- 4-5 sveppir
- 4 hvítlauksgeirar, kramdir
- 2 msk ólívuolía
- 1 tsk sinnepsduft
- 2 tsk paprika
- 2 tsk hvítlauksduft
- 2 tsk laukduft
- 1-2 msk púðursykur
- 1-2 msk Worchestershire sósa
- 2 msk tómatsósa (gamla góða)
- 1 dós tómatsósa
- ¼ dós vatn
- Salt og pipar
- Hamborgarabrauð
- Smjör
Fyrir alveg rosalega mörgum árum síðan heyrði ég fyrst minnst á Sloppy Joes, þ.e. samloku með nautahakki. Ef mér skjátlast ekki þá var þetta í einhverri bíómynd, gott ef það var ekki í einhverri gamalli stríðsmynd þar sem hermennirnir voru himinlifandi að fá Sloppy Joes eftir að hafa fengið eitthvað miður gáfulegt að éta á vígvellinum. Síðan þá hefur mig alltaf langað til að prófa þennan áhugaverða rétt en einhvernvegin hef ég aldrei komið mér í það, þar til nú.
Eftir að hafa gramsað aðeins í gegnum internetið ákvað ég að taka mið af uppskrift frá þeirri ágætu konu Laura Vitale sem heldur úti youtube rásinni Laura in the Kitchen. Ég breytti uppskriftinni lítillega frá því sem er hjá henni og aðallega á þann hátt að ég bætti sveppum við uppskriftina hennar og setti heldur meiri Worchestershire sósu. Svo er náttúrulega hægt að krydda þetta á hvern þann hátt sem hverjum og einum sýnist. Smá chilli gæti t.d. gert heilmikið til að hrista aðeins upp í þessum annars ágæta rétti.
Uppskriftin er í raun mjög einföld. Ég byrjaði á því að skera laukinn og paprikuna í litla teninga og sveppina í sneiðar. Á meðan leyfði ég olíunni að hitna á djúpri pönnu og setti svo hakkið á pönnuna og lét að brúnast. Þegar hakkið var klárt losaði ég mestu fituna af pönnunni og setti svo laukinn, paprikuna og sveppina saman við ásamt 1 tsk af hvítlauksmauki sem ég ákvað að nota í staðin fyrir að skera niður hvítlauksgeira. Þessu leyfði ég að malla í smá tíma eða þar til grænmetið var farið að linast aðeins.
Næst setti ég tómatsósuna (þessa gömlu góðu sem við notum á pylsurnar) saman við ásamt púðursykrinum og kryddinu og leyfði þessu að malla í smá stund, svona u.þ.b. eina mínútu eða svo. Að lokum setti ég innihaldið úr tómatsósudósinni saman við, setti svo smá vatn í hana til að ná restinni úr og skellti því út í ásamt worchestershire sósunni og leyfði þessu svo að sjóða niður við vægan hita þar til mest allur vökvinn hafði gufað upp.
Á meðan kássan sauð niður smurði ég hamborgarabrauðið með smjörinu og setti það með smjörið niður í ofn í smá stund eða þar til það var farið að brúnast aðeins. Ég tók það svo út og hrúgaði kássunin á brauðið og setti svo smá rifinn ost ofan á áður en ég lokaði samlokunni. Það er síðan eflaust mjög gott að hafa ofnbakaðar sætkartöflufranskar með þessu og ekki væri verra að hafa smá hrásalat.
Skildu eftir svar