- 500 gr. kjúklingalæri, beinlaus og skinnlaus
- salt
- pipar
- 1,5 msk hveiti
- 4-5 þurkaðir rauðir chilli
- 4 msk olía
- 2 tsk engifermauk
- 2 tsk hvítlauksmauk
- grænn chilli
- ½ laukur í bitum
- 1 paprika í bitum
- 3 msk soyasósa
- 2 msk sambal (chilli mauk)
- 1 msk edik
- 2 vorlaukar
Tveir félagar mínir höfðu samband við mig um helgina til að athuga hvort ég myndi kíkja með þeim á einhvern pub til að horfa á boltann og fá okkur bjór og burger. Ég kom í snarhasti með gagntilboð og bauð þeim upp á að kíkja til mín og við myndum kíkja á leikinn hjá mér og ég myndi elda eitthvað gott. Þar sem ég var búinn að plana það að elda mér chilli kjúkling ákvað ég bara að halda mig við það og elda bara það ríflega að það myndi duga fyrir okkur þrjá.
Það er skemmst frá því að segja að kjúllinn sló rækilega í gegn þó svo að menn væru farnir að svitna hressilega enda var hann vel sterkur. Það er samt ekkert sem þarf að fæla menn frá því að prófa að elda þennan rétt því það er alltaf hægt að fækka þurkuðu chilliunum, græna chilliunum og svo má setja minna af chilli maukinu. Þar fyrir utan var ég með þurkaðan thai chilli sem er vel sterkur en það ætti að vera hægt að fá þurkaðan chilli sem er daufari.
En að eldamennskunni. Þetta er tiltölulega einföld uppskrift þó svo að hráefnislistinn sé eilítið langur. Til að byrja með er ágætt að skera niður allt grænmetið og setja til hliðar. Ég skar laukinn í mátulega litla bita en samt ekkert neitt pínulitla og svo skar ég paprikuna í mátulega stóra bita en samt ekki of stóra. Þið skiljið hvað ég meina. Því næst var það græna chilliið sem varð hnífnum að bráð en hann skar ég svolítið skáhallt (svona fyrir lúkkið) og það sama gerði ég við vorlaukinn. Þurra chilliið klippti ég svo niður í litla bita.
Næsta skrefið var að skera kjúklinginn niður í bita, svona c.a. munnbita, og krydda hann svo með smá salti og pipar. Farið samt varlega í saltið þarna því soyja sósan sem kemur seinna er sölt líka. Hveitinu er svo stráð yfir kjúklinginn og honum vellt upp úr því þar til bitarnir eru hjúpaðir í hveiti. Þá var komið að því að elda þetta allt saman. Olíuna hitaði ég í wok pönnu á frekar miklum hita og setti svo kjúklinginn í olíuna og reyndi að koma honum þannig fyrir að hann myndi ekki enda í einum klump. Ég gegnum steikti kjúklinginn og fiskaði hann svo af pönnunni og lagði til hliðar.
Og þá var komið að því að fá smá krydd í tilveruna. Þurrkaða chilliið fór í olíuna sem var eftir á pönnunni og fékk að leika sér þar í smá stund, samt ekki meira en 30 sekúndur. Næst fengu engiferið, hvítlaukurinn og græna chilliið að vera með og það mallaði á pönnunni í c.a. eina mínútu. Næst bættust laukurinn og paprikan í hópinn og mallaði í mínútu til viðbótar.
Og þá var komið að því að blanda sósunni í málið. Soya sósan, chilli maukið og edikið smelltu sér á pönnunna og kjúklingurinn fylgi svo í kjölfarið og allt blandaði þetta geði þar til kjúklingurinn og grænmetið var útatað í sósunni. Þá var ekkert annað eftir en að setja vorlaukinn saman við og hræra smá upp í þessu og fara síðan að njóta veiganna. Með þessu hafði ég ekkert annað en soðin hrísgrjón en eflaust væri gott að hafa með þessu núðlur eða steikt hrísgrjón og svo eitthvað gott brauð.
Skildu eftir svar