- Marinering (dugar fyrir 3-4 bringur):
- 2 msk cajun krydd
- ¼ tsk pipar
- ½ tsk laukduft
- ½ tsk hvítlauksduft
- ½ tsk salt
- 2 msk olía
- 2 msk bbq sósa
- Sósan:
- 1 dós tómatar
- 1 lítill laukur, smátt saxaður
- 1 hvítlauksgeiri, kraminn
- 3-4 lauf basil
- 1 tsk oregano
- Salt
- Pipar
- Smá sykur (má sleppa)
- 2 msk ólívuolía
- Deigið (dugar í 4-6 meðal pizzur):
- 1 kg hveiti
- 1 tsk salt
- 14 gr ger
- 1 msk sykur
- 4 msk ólívuolía
- 650 ml volgt vatn
- Álegg:
- Paprika
- Sveppir
- Laukur
- Beikon
- Bbq sósa
- Mozarella ostur
Það er orðið alltof langt síðan ég hef sett inn færslu á þennan vef. Vinna og annað hefur verið að þvælast alltof mikið fyrir áhugamálunum. En það var nú svo sem alltaf meiningin með þessari síðu minni að hún er fyrst og fremst fyrir mig að skrásetja eitt og annað sem ég bralla í eldhúsinu og það að aðrir kíki (vonandi) á hana er bara bónus. Þann dag sem þetta verður kvöð hætti ég að halda úti þessari síðu. En síðan er hér enn og verður áfram því ég hef enn gaman af þessu þó svo að stundum líði langur tími milli færsla.
En nóg af svona rausi. Hér skal skrifað um mat og það góðan mat. Eitt af því sem mér þykir alltaf gott er góð pizza. Það skemmtilega við pizzur er að það er hægt að gera endalausar tilraunir með þær. Ég hef verið að prófa mig áfram í gegnum tíðina með mismunandi tegundir af deigi (svona þegar ég á annað borð nenni að gera deigið sjálfur) og í seinni tíð hef ég verið að hallast svolítið að uppskrift frá Jamie Oliver. Sósan er annað sem ég geri stundum sjálfur og hef ég þar verið að gera ýmsar tilraunir en er ekki enn kominn með uppskrift sem ég er verulega hrifinn af. Þær tilraunir halda því áfram líka. Svo er endalaust hægt að leika sér með áleggið á pizzuna en í seinni tíð hef ég verið að hallast meira og meira af kjúkling á pizzur en hann þarf þá að vera vel kryddaður.
Þessi pizza er einmitt gerð eftir uppskriftinni frá Jamie Oliver. Ég byrjaði reyndar daginn áður en þá marineraði ég kjúklinginn. Ég notaði tækifærið þegar ég eldaði mér kjúklingabringu til að hafa í kvöldmatinn og marineraði bara nógu margar bringur til að ég ætti á pizzuna líka. Marineringin er einföld, bara blanda öllum hráefnunum saman í skál og smyrja marineringunni svo á kjúklinginn. Þetta þarf að fá að marinerast í alla vega klukkutíma áður en bringurnar eru steiktar á pönnu og svo er eldunin kláruð í ofni þar til bringurnar eru steiktar í gegn. Ég skar svo kjúklinginn í litla bita til að dreifa á pizzuna.
Þar sem kjúklingurinn var afgreiddur kvöldið áður var næsta skref að sjálfsögðu að gera deigið. Ég setti hveitið og saltið á hreinann eldhúsbekkinn og gerði holu í miðjunni. Næst blandaði ég saman olíunni, sykrinum, gerinum og vatninu og helti svo í smá skömmtum í holuna í hveitinu og blandaði þessu saman með gafli þar til vatnið var búið. Ég hnoðaði svo deigið þar til það var orðið slétt og fínt. Deigið setti ég svo í olíuborna skál, setti plastfilmu yfir og leyfði því að hefast í klukkutíma.
Á meðan deigið var að hefast bjó ég til sósuna. Ég setti tómatana í skál og marði þá með gafli þannig að þeir voru mátulega grófir. Ég hitaði svo olíuna í potti og steikti svo laukinn þar til að byrjaði að vera gagnsær og setti þá hvítlaukinn saman við. Þessu leyfði ég að malla í u.þ.b. eina mínútu. Tómötunum bætti ég svo saman við og leyfði suðunni að koma upp. Ég bragðbætti svo sósuna með salti og pipar og setti svo basil og oregano saman við og leyfði þessu að malla í 15 mínútur. Þegar sósan var svo farin að kólna aðeins setti ég hana í matvinnsluvél og maukaði hana aðeins svo hún væri ekki alveg jafn gróf.
Þegar deigið var búið að hefa sig tók ég það og sló úr því mesta loftið og hnoðaði það svo aðeins. Ég skipti því svo í 4 (næstum) jafna bita og tók einn þeirra og hnoðaði í kúlu og flatti svo út í mátulega þunna pizzu. Hina bitana vafði ég bara í plast og setti svo í frysti. Ég smurði svo sósunni á botninn og dreifði mozarella ostinum yfir. Næst raðaði ég álegginu ofan á ostinn og endaði svo á að setja svolítið af bbq sósu yfir allt saman. Þetta bakaði ég svo í 200 gráðu heitum ofni í 10-15 mínútur eða þar til botninn var bakaður í gegn og osturinn bráðnaður.
Skildu eftir svar