- 3 kjúklingabringur
- 2 msk sulta (apríkósu eða hvað sem hugurinn girnist)
- 2 msk tómatssósa
- 1 msk soyjasósa
- 1 msk worcestershiresósa
- 2 hvítlauksgeirar
- 3-4 jalapeno sneiðar
Loksins, loksins kemur ný færsla hingað inn. Ástæðan fyrir því að lítið hefur gerst undanfarið er að tölvan mín hefur verið með leiðindi og svo rétt fyrir jólin dó hún endanlega. Ég er nú kominn með nýja tölvu og allan þann hugbúnað sem ég þarf til að vinna myndirnar sem ég set inn með hverri færslu þannig að nú er ekkert lengur því til fyrirstöðu að setja inn færslur.
Fyrsta færslan í nýrri tölvu er fyrir það sem ég kalla upp á íslensku klístraðan kjúkling en á ensku heitir hann sticky chicken. Þessa uppskrift fann ég hjá strákunum á Sorted en þeir eru líka með youtube rás þar sem þeir setja inn nokkuð skemmtileg myndbönd þar sem þeir eru að elda ýmsan mjög girnilegan mat. Þetta er það fyrsta sem ég prófa að elda af uppskriftunum þeirra en verður alls ekki sú síðasta.
Þetta er mjög einföld uppskrift sem ég breyti reyndar lítillega frá þeirra útgáfu. Til að byrja með setti ég rifsberjahlaup (sultan) í eldfast mót og bætti svo tómatsósunni, soyasósunni og worcestershiresósunni saman við og blandaði vel saman. Við þetta bætti ég svo smátt söxuðum hvítlauknum ásamt söxuðum jalapeno sneiðunum. Ég var með jalapeno úr krukku en það er eflaust mjög gott líka að nota ferskan jalapeno eða chilli.
Ég setti svo kjúklingabringurnar í marineringuna og passaði að þær væru alveg þaktar í marineringunni. Það er svo mjög gott að leyfa þessu að standa i 30 mínútur til að leyfa kjúklingnum að taka í sig bragðið. Kjúklingurinn er svo bakaður í ofni í 20 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Ég miðaði við að hann næði 70 gráðu hita. Með þessu hafði ég svo hrísgrjón og soyjasósu.
Skildu eftir svar