- Laxinn
- 1 kg roðlaus lax
- Börkur og safi úr 2 sítrónum
- Börkur og safi úr 1 lime
- 25 gr kóríander fræ
- 100 gr salt
- 50 gr sykur
- 50 gr ferskt dill
- 1 flaska Gæðingur stout
- Brauðið
- 350 gr hveiti
- 3 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- 1 msk hunang
- 1 flaska Gæðingur stout
- Smá ostur, rifinn
- Sjávarsalt
- Sósan
- 100 ml sýrður rjómi
- 100 ml mayonaise
- 1 msk dijon sinnep
- 1 msk sætt sinnep
- 1 msk sýróp
- 1 msk fljótandi hunang
- handfylli af dilli
Rétt eins undanfarin ár sá ég um forréttinn í hinu árlega matarboði á Gamlárskvöld. Ég hef verið í mat hjá vinafólki mínu þetta kvöld undanfarin 11-12 ár og því er löngu komin hefð á þetta. Bróðurpartinn af þessum tíma hefur það verið í mínum verkahring að sjá um forréttinn en aðrir sjá svo um að koma með eftirrétt og meðlæti.
Ég hef alltaf, utan eitt skipti, haft fisk í forrétt og hefur það verið virkilega gaman að reyna að koma með eitthvað alveg nýtt á hverju ári. Fyrsta árið sem ég sá um forréttinn var ég með útigrillaðan beikonvafinn skötusel og ég hef einnig verið með grafinn karfa, sítrónumarineraðann lax og margt annað áhugavert. Þetta hefur alla vega aldrei verið algjörlega hefðbundið.
Síðustu áramót ákvað ég að hafa bjórmarineraðann lax. Uppskriftina fann ég á Storehouse síðu Guinness og ákvað að nota hana óbreytta að því undanskildu að ég notaði stout frá Gæðing þar sem Guinness Foreign Extra Stout fæst ekki hér á landi. Það að marinera laxinn var í sjálfu sér sáraeinfalt. Ég raspaði niður börkinn af sítrónunum og limeinu og setti það í matvinnsluvél ásamt sykrinum, saltinu, dillinu og kóríanderfræjunum. Þvínæst kreisti ég safann úr sítrónunum og limeinu saman við og helti bjórnum út í og blandaði vel saman. Ég raðaði svo laxabitunum í mót og helti marineringunni yfir og setti svo plastfilmu yfir. Þetta fékk svo að marinerast í 48 tíma og var laxinu snúið á 12 tíma fresti.
Ég ákvað að fyrst ég væri með bjórlax að það væri stórsnjallt að hafa bjórbrauð með honum. Ég leitaði því aðeins og fann uppskrift að bjórbrauði inn á allskonar.is. Þar sem það þurfti ekkert að hnoða eða hefa brauðið í uppskriftinni fannst mér alveg upplagt að nota hana svo fyrirhöfninni yrði ekki of mikil. Hráefnunum er bara helt í skál og hrærð vel saman. þessu er svo helt í smurt form og ostinum og saltinu dreift yfir. Brauðið er svo bakað í um 40 mínútur við 190°. Í uppskriftinni á allskonar.is eru reyndar notaðar kryddjurtir í staðin fyrir saltið en mér leist einhvern vegin betur á að nota sjávarsalt í þetta.
Með svona girnilegum lax og brauði varð svo að vera sósa og hana sótti ég inn á bloggið hjá Ragnari Frey, lækninum í eldhúsinu. Enn og aftur var þetta sáraeinfalt (það var svolítið þemað hjá mér í þetta sinn ásamt bjórnum). Hráefnunum er bara hrært saman og svo smakkað til.
Þegar kom svo að því að gæða sér á þessu skar ég brauðið í sneiðar og lagði á disk. Laxinn skáskar ég og setti fjórar sneiðar á hverja brauðsneið og svo ríkulega af sósunni yfir. Það er skemmst frá því að segja að þetta sló algjörlega í gegn og ég þakkaði fyrir að það var nóg til því flestir fengu sér ábót af forréttinum.
Skildu eftir svar