- 7-800 gr. hrossakjöt
- 500 gr. kartöflur
- 250 gr. gulrætur
- 300 gr. rófur
- 300 gr. sætar kartöflur
- 1 lítill haus blómkál
- 1 lítill haus brokkoli
- 1 laukur
- 2 msk súpujurtir
- 1 tsk hvítlauksmauk
- ½ dl hrísgrjón
- 1-2 msk salt
- 2,5 L vatn
- salt og pipar til að bragðbæta
Um daginn eldaði ég mér klassíska íslenska kjötsúpu í fyrsta skipti. Ég var búinn að vera ansi lengi á leiðinni að prófa þetta enda þykir mér kjötsúpa alveg afskaplega góð og fátt er betra að fá sér þegar maður stoppar í mat í einhverri vegasjoppunni þegar maður er á þvælingi á mótorhjólinu, tala nú ekki um þegar maður er kaldur og blautur.
Ég var síðan að spjalla við vinnufélagana í kaffitímanum daginn eftir að ég eldaði súpuna og talið barst, eins og svo oft áður, að mat og ég fór að tala um hvað súpan hefði hepnast vel hjá mér. Það fór því ein í hópnum að tala um hvernig það væri stundum notað hrossakjöt í súpuna í hennar fjölskýldu og jafnvel sætar kartöflur líka. Ég ákvað því að prófa þetta einhvern daginn og núna hef ég loksins fengið tækifæri til þess.
Það gékk reyndar ekki alveg þrautalaust að ná í hráefnið í þessa súpu. Grænmetið var reyndar ekkert mál en þegar kom að kjötinu vandaðist málið. Ég fann ekki neitt hrossakjöt til að byrja með í Bónus á Laugaveginu. Reyndar var úrvalið af ófrosnu kjöti þar eiginlega hlægilega lítið. Ég fór því í Víði vestur í bæ. Þar var úrvalið af kjöti mun meira en ekkert hrossakjöt. Ég fór því í Víði í Skeifunni því ég mundi að viku áður hafði verið gott úrval af bæði folaldakjöti og hrossakjöti þar. Í þetta sinn fann ég ekki neitt við fyrstu leit. Eftir smá stund rak ég svo augun í hrossalundir og var fljótur að grípa pakka af henni.
En þá að eldamennskunni. Ég tók fyrst hrossakjötið og skar það niður í mátulega stóra bita, svona u.þ.b. munnbita. Laukinn skar ég svo smátt niður. Ég hitaði svo smá olíu í stórum potti og leyfði kjötinu að brúnast aðeins áður en ég setti laukinn saman við ásamt súpujurtunum. Því næst helti ég 1,8 lítrum af vatni í pottinn og leyfði suðunni að koma upp. Þetta fékk svo að malla í 40 mínútur.
Á meðan kjötið mallaði flysjaði ég kartöflurnar, rófurnar, gulræturnar og sætu kartöfluna og skar niður í c.a. munnbita stóra bita. Ég brytjaði líka niður blómkálið og brokkolíið. Þegar kjötið var búið að sjóða í 40 mínútur setti ég hvítlauksmaukið, 1 msk af salti og grænmetið út í pottinn og bætti svolitlu vatni við svo það myndi fljóta yfir allt grænmetið. Þessu leyfði ég að malla í 25 mínútur í viðbót eða þar til grænmetið var soðið í gegn. Ég smakkaði svo súpuna til með meiru salti og pipar.
Þar sem ég var að skipta um myndavél um daginn og tölvudruslan mín vill ekki þekkja minniskortið úr þeirri myndavél eru myndirnar við þessa færslu teknar á símann minn og eru eingöngu til bráðabirgða. Ég mun setja inn fleiri og betri myndir þegar ég hef lagað það.
UPPFÆRT: Nýjar og betri myndir eru komnar inn. Ég læt eina fljóta með sem sýnir einn af kostunum fyrir einhleypann mann að elda súpu í stórum potti. Það verður nóg af afgangi fyrir næstu daga.
Skildu eftir svar