- 1 hæna, um 2 kg
- 1 blaðlaukur
- 4 gulrætur
- 4 sellerístönglar
- 3 laukar
- 1 kjúklingateningur
- 1 grænmetisteningur
- 2 epli
- 1-2 msk karrý
- 1-2 msk hveiti
- 200 gr. hrísgrjón
- 1 gul paprika
- 1 rauð paprika
- 1 græn paprika
Á dögunum átti ég afmæli. Ég náði þeim áfanga að vera kominn með 15 ára reynslu af því að vera 25 ára. Að því tilefni skrapp ég aðeins austur á land til að njóta afmælisins með ættingjunum. Daginn sem aðal partýið var eldaði mamma þessa líka ljómandi fínu súpu sem við gæddum okkur á áður en bjórinn var teigaður. Mér fannst þessi súpa það góð að ég náði afriti af uppskriftinni frá mömmu og ákvað að prófa að elda hana sjálfur. Ekki varð hún verri hjá mér og spilaði þar líklega stærsta rullu að ég setti aðeins meira krydd í súpuna heldur en mamma hafði gert enda langaði mig að hafa aðeins meira kick í henni.
Ég ákvað að gera súpuna í tveimur áföngum. Fyrst bjó ég til soðið og svo daginn eftir eldaði ég sjálfa súpuna. Soðið gerði ég þannig að ég setti hænuna (reyndar voru þær tvær litlar) í stóran pott með vatni. Ég hreinsaði blaðlauk, gulrætur, sellerý og einn lauk og setti út í pottinn ásamt súputeningunum. Þetta sauð ég til að byrja með í 20-25 mínútur. Ég tók svo grænmetið upp úr og skar það í bita og setti það í skál til geymslu. Hænurnar lét ég svo sjóða áfram alls í 2 klukkutíma. Fleyta þarf fituna reglulega ofan af. Þegar þetta er búið að sjóða eru hænurnar teknar úr soðinu og soðið sigtað. Þegar hænurnar voru farnar að kólna aðeins hreinsaði ég húð, bein og fitu af hænunum og reif kjötið niður.
Daginn eftir kláraði ég svo súpugerðina. Ég fínsaxaði 2 lauka, flysjaði og skar eplin í teninga og setti í pott og léttsteikti í smjöri ásamt karrýi. Ég notaði 4 msk af karrýinu, bæði af því að ég var búinn með sterka karrýið mitt og svo langaði mig að hafa smá kick í súpunni. Á meðan þessu stóð sauð ég hrísgrjónin á hefðbundin hátt og saxaði paprikuna í teninga. Þegar laukurinn og eplin voru búin að steikjast mátulega mikið stráði ég hveitinu yfir og helti svo soðinu út í pottinn. Ég setti svo rifið kjötið og paprikuna út í pottinn ásamt niðurskornu grænmetinu. Þessi leyfði ég að sjóða í smá stund áður en ég hrærði hrísgrjónin saman við og smakkaði þetta svo til með salti pipar og smá chilli kryddi.
Með þessu er svo upplagt að hafa eitthvað gott brauð og kryddsmjör.
Skildu eftir svar