- 1 msk olía
- 1 stór laukur, saxaður
- 2 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 1-2 jalapeno, saxaðir
- ½ kg nautahakk
- 1 flaska bjór
- 2 msk chilli duft
- 1 tsk cumin
- 1 tsk paprika
- 1 tsk svartur pipar
- 1 tsk salt
- ½ tsk sinnepsduft
- ¼ tsk allrahanda
- 2 msk worchestershire sósa
- ½ flaska chillitómatsósa
- 10 pyslur
- 10 pyslubrauð
- beikon
- rifinn ostur
- jalapeno í krukku
- sætt sinnep
- (eða annað það sem hægt er að setja á pylsur)
Ég verð að viðurkenna það að pylsur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og þá skiptir nánast engu máli hvernig þær eru matreiddar. Þessar klassísku soðnu pylsur í finnst mér alltaf jafn góðar og grillaðar pylsur gera alveg sumarið fyrir mig. Ég hef einstaka sinnum fengið mér chillipylsur þegar ég hef séð þær í pysluvögnum bæjarins (sem er eiginlega alltof sjaldan). Mér datt því hug að það væri gaman að prófa að gera svoleiðis sjálfur. Eftir smá grams fann ég uppskrift á hilahcooking.com sem mér leist vel á og ákvað að láta vaða.
Þetta er í raun sáraeinfalt. Olían er hituð í potti á meðal hita. Laukurinn er settur pottinn og honum leyft að malla í svona 1 mínútu eða þar til hann er farinn að linast aðeins. Hvítlauknum og jalapenoinu er þá bætt saman við og leyft að malla í 30 sekúndur. Þvínæst er hakkið sett ofan á laukinn og bjórnum hellt yfir. Hakkið er losað í sundur í bjórnum og restinni af hráefninu er bætt saman við. Þessu er svo leyft að malla í svona klukkutíma eða þar til kássan er orðin mátulega þykk. Chilli til að nota á pylsur þarf nefninlega að vera frekar þykkt svo það renni ekki allt í burtu eða bleyti brauðið of mikið.
Ég steikti mér svo beikonvafðar pylsur og setti í pylsubrauðin. Chillið setti ég svo ofan á pylsuna ásamt súrsuðu jalapeno, sætu sinnepi og rifnum osti. Það er líka ágætt að setja þetta allt undir pylsuna því hitt getur orðið pínu subbulegt.
Skildu eftir svar