- Curry puff fylling
- 5 msk olía
- 1 rauðlaukur, smátt skorinn
- ½ tsk garamasala krydd
- 2 tsk karrý
- 1 tsk chili duft
- ½ tsk túrmerik
- 100-150 gr. smátt brytjaður kjúklingur
- 2 stórar kartöflur, soðnar og í smáum bitum
- 1½ tsk sykur
- ½ tsk svartur pipar
- ½ tsk salt
- Empanada fylling
- 200 gr. pizzaostur
- 200 gr. smátt brytjaður kjúklingur
- 1 jalapeño pipar
- 3 hvítlauksgeirar, marðir
- 2 tsk laukduft
Ég er á leiðinni í langferð og ætla meðal annars að liggja eitthvað smávegins í tjaldi. Þar að auki verð ég á keyrslu á mótorhjólinu næstu daga og því fannst mér alveg nauðsynlegt að gera ráð fyrir einhverri næringu á leiðinni. Þar sem ég er of nískur þessa dagana til að fara bara í næstu sjoppu til að borða ákvað ég að útbúa mér eitthvað þægilegt nesti. Þá hef ég líka eitthvað til að narta í þegar ég vakna á morgnanna.
Til að byrja með bjó ég mér til pizzasnúða og svo datt mér í hug að leita eftir uppskrift að rétt sem ég hafði fengið í Singapore og er kallað curry puffs. Þetta er smjördeigshálfmáni með fyllingu úr kjúkling og kartöflum. Svo þegar ég var að horfa á vídeó með Hilah Johnson á hilahcooking.com, þar sem hún var að búa til grænmetis empanadas, datt mér í hug að googla uppskriftir af svoleiðis með kjúkling.
Þessu verður svo hlaðið á hjólið ásamt öðrum farangri og svo verður haldið út í óvissuna. Vonandi verður veðrið til friðs.
En best að ég segi nú aðeins frá því hvernig curry puffs og empanadas er gert og byrja á curry puffs. Ég byrja á að búa til fyllinguna og í báðum réttum nota ég kjúkling sem ég steikti kvöldið áður. Það er því alveg fyrirtak að nota afgangs kjúkling. Kjúklinginn brytjaði ég niður í litla teninga, rúmlega hálfur cm á kannt. Laukinn brytjaði ég líka smátt niður og setti hann svo á pönnuna til að brúna hann aðeins. Ég setti svo garamasala, karrý, chilli og túrmerik á pönnuna og leyfi að steikjast smá. Restinni af hráefnunum var svo bætt við og þessu leyft að malla í 5 mínútur áður en þetta var tekið af hitanum og leyft að kólna.
Því næst gerði ég fyllinguna fyrir empanadas. Hún er mjög einföld. Öllu hráefninu var komið fyrir í skál og blandað vel saman. Næsta skref var að útbúa hálfmánana. Ég ákvað að stytta mér leið og var bara með tilbúið smjördeig sem ég rúllaði út og skar svo út kringlóttar kökur sem voru um 12 cm í þvermál. Fyllinguna setti ég svo á miðja kökuna, u.þ.b. 2 tsk pr. köku, og braut þær svo saman og lokaði þeim með því að þrýsta gafli á brúnirnar. Ég stakk nokkur göt á hverja köku til að hleypa gufunni út og bakaði svo kökurnar í um 20 mínútur í 200° heitum ofni.
Skildu eftir svar