- 1½ laukur
- 2½ dl hrísgrjón
- 1 tsk hvítlauksmauk
- 2 msk smjör
- 6 dl vatn
- ½ tsk salt
- 3 súputeningar
- 200 gr bacon
- 1 pylsupakki
- 2 egg
- Krydd
Risotto var einn af þessum réttum sem ég hlakkaði alltaf til að fá þegar ég var polli. Ekki spillti fyrir að í réttinum eru pylsur, sem er eitthvað sem mín fjölskylda hreinlega elskar. Það var því alltaf veisla þegar mamma eldaði risotto handa okkur ormunum.
Þetta er einfaldur réttur sem er samt auðvelt að klúðra ef maður passar sig ekki. Ég breytti aðeins út frá uppskriftinni hennar mömmu, þ.e. ég bætti við hvítlauksmauki og smá pipar og reyktri papriku til að fá aðeins meira og fjölbreyttara bragð heldur en var hjá mömmu. Einnig nota ég alvöru smjör í staðin fyrir smjörlíki því það verður allt betra með smjöri eða svo segja menn alla vega.
Galdurinn við þennan rétt er hvernig hrísgrjónin eru eldur. Ég saxaði niður laukinn og setti hann síðan, ásamt hvítlauksmaukinu, í pott með bræddu smjörinu. Þegar laukurinn var orðinn mjúkur setti ég hrísgrjónin út í pottinn og leyfði þeim að draga í sig aðeins af smjörinu. Þegar þetta var búið að fá að malla saman í nokkrar mínútur hellti ég vatninu í pottinn og setti saltið og súputeninga saman við. Ég notaði 1 svínakraftstening og 2 kjúklingakraftsteninga en það má nota í raun hvaða súputeninga sem hugurinn girnist.
Hrísgrjónin og laukurinn fengu síðan að sjóða við vægan hita í 20 mínútur. Uppskriftin segir að það eigi ekki að hræra í hrísgrjónunum en ég gerði það nú engu að síður því annars festast hrísgrjónin við botninn í pottinum mínum. Á meðan hrísgrjónin suðu skar ég beikonið og pylsurnar í bita og steikti það á pönnu. Eggin setti ég svo í skál og sló þau saman. Þegar hrísgrjónin voru tilbúin tók ég pottinn af hitanum og setti beikonið, pylsurnar og eggin út í og hrærði öllu vel saman. Ég bragðibætti svo með smá svörtum pipar og reyktri papriku.
Ef þetta er rétt gert fáið þið silkimjúkt risotto. Það má að sjálfsögðu skipta út beikoninu og pyslunum fyrir hvað sem manni langar í. Þannig gæti ég t.d. trúað því að það væri mjög gott að setja grillaðan kjúkling og steikta sveppi í hrísgrjónin. Með þessu er svo mjög gott að hafa hvítlauksbrauð og jafnvel ferskt salat.
Skildu eftir svar