Ég var á dögunum í Berlín. Ég var þar í heila viku í góðu yfirlæti með góðum vinum og gistum við í Kreuzberg hverfinu í vesturhluta Berlín. Að sjálfsögðu nýttum við tækifærið og fórum (mjög) reglulega út að borða og sjaldnast varð maður fyrir vonbrigðum með matinn þarna enda Kreuzberg stúttfullt af góðum veitingastöðum. Það væri of langt mál að ætla að segja frá öllum stöðunum sem við prófuðum þannig að ég ætla að láta mér nægja að tala aðeins um þá þrjá staði sem okkur þóttu bestir.
Fyrsti staðurinn sem vert er að nefna heitir Chaapa og er við Maaßenstraße en það er reyndar í Schöneberg hverfinu. Þetta er veitingastaður með víetnamskan og tælenskan mat. Við náðum okkur í borð úti og eftir smá stund kom þjóninn með matseðilinn. Úr varð að við pöntuðum okkur forrétt, aðalrétt og eftirétt og eins og var eiginlega reglan hjá okkur þá smökkuðum við hjá hvert öðru. Forrétturinn sem ég fékk mér voru stökkar vorrúllur með kjúkling. Þetta var alveg ljómandi gott en kannski svolítið fitugt. Aðalrétturinn var svo PAT PAK RAUM NAM MAN HOI eða grænmeti í ostrusósu og með þessu var crispy duck. Skammturinn var alls ekki af minni gerðinni og á endanum skildi ég eftir slatta af grænmetinu svo ég hefði pláss yfir steiktan banana og ís í eftirrétt. Heilt yfir var þessi staður alveg fyrirtak og vel þess virði að kíkja á hann.
Sá staður sem var næst bestur heitir Madang og er kóreanskur veitingastaður við Gneisenaustraße í Kreuzberg. Þarna líkt og á fleiri stöðum fengum við okkur forrétt og aðalrétt. Ég man hins vegar ekki hvort við fengum okkur eftirrétt í þetta sinn. Þar sem ég finn ekki heimasíðu fyrir staðinn get ég ekki rifjað alveg nógu vel upp hvað það var sem við pöntuðum nema hvað að aðalrétturinn sem ég fékk mér var spicy kjúklingur og glærar núðlur. Þetta var einn af þessum réttum sem maður átti í erfiðleikum með að hætta að borða af þó svo maður væri orðinn pakksaddur. Maturinn á þessum stað fær því alveg topp einkunn en aðeins vantaði upp á þjónustuna en þá skrifast líklega á það að annar þjónninn var greinilega nýlega byrjaður og hinn var svolítið mikið að passa upp á hann og segja honum til.
Besti veitingastaðurinn sem við fórum á var Little Tibet sem er líka við Gneisenaustraße í Kreuzberg og í raun bara örstutt frá Madang. Þetta er lítill og huggulegur staður með tíbeskan mat að mestu leiti en einnig er hægt að fá þarna indverska og tælenska rétti. Ég ákvað samt að halda mig við tíbesku réttina þar sem maður fær ekki mjög oft svoleiðis. Þarna fórum við líka í gegnum forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Í forrétt fékk ég mér vorrúllur svipaðar þeim sem ég fékk mér á Chaapa nema hvað að þessar voru ekki nærri eins fitugar og þar. Ég smakkaði líka steikta dumpling sem voru alveg ótrúlega góðir. Í aðalrétt fékk ég mér svo Langsha sem er nautakjöt og grænmeti í sterkri sósu. Eftir fyrstu 2-3 bitana hélt ég að ég væri að verða fyrir vonbrigðum með matinn því mér fannst hann vera hálf bragðlaus en svo allt í einu sprakk bragðið fram og restin af máltíðinni var bara veisla fyrir bragðlaukana. Ég hef aldrei upplifað þetta, hvorki fyrr né síðar, að rétturinn springi ekki út fyrr en eftir nokkra bita því venjulega finnur maður það strax hvort rétturinn sé góður. Í lokin fékk ég mér svo bara ís í eftirrétt og sem gott dæmi um hvað þjónustan var góð á þessum stað þá fengum við auka kúlu af ís svo við gætum öll smakkað fyrst við pöntuðum bara tvo eftirrétti. Þjónninn var líka mjög liðlegur þegar við vorum að spyrja hann út í hitt og þetta í sambandi við réttina sem við pöntuðum og hljóp meira að segja inn til að kanna hvað kryddið sem í þeim var heitir á ensku.
Little Tibet var s.s. langsamlega besti staðurinn sem við fórum á að öðrum stöðum ólöstuðum.
Tvo aðra staði ætla ég að minnast á í örstuttu máli. Sá fyrri heitir White Trash Fastfood en eins og nafnið gefur til kynna er matseðillinn svolítið amerískur. Þetta er svona stemmingsstaður þar sem vissara er að panta borð áður en farið er og um helgar er yfirleitt einhver hljómsveit að spila og mikið stuð. Þarna smakkaði ég líka í fyrsta sinn kálfarif.
Hinn staðurinn er Mustafas við Mehringdamm í Kreuzberg. Þetta er allra besti kebabstaður sem ég hef farið á og er talinn sá allra besti í Berlín. Besta vísbendingin um það hvað þessi staður er góður er að það er alltaf biðröð við hann, sama á hvaða tíma sólahringsins maður fór framhjá honum. Við þurftum að bíða í hálftíma eftir að fá kebab þarna en biðin var algjörlega þess virði.
Skildu eftir svar