- 2 kjúklingabringur
- 4 msk olía
- 1 laukur, smátt skorinn
- 1 tsk hvítlauksmauk
- 1 tsk engifermauk
- ¾ tsk kóríander
- Smá túrmerik
- ¼ tsk cumin duft
- ¼ tsk garam masala
- 1 tsk paprika
- 2 tómatar í bitum
- salt
Eftir að hafa verið að þvælast í útlöndum undanfarið var mig farið að langa til að elda eitthvað sjálfur, þ.e. eitthvað annað en egg og beikon í morgunmat. Ég dró því fram bók sem ég hafði keypt í London í vor og fór að gramsa í henni en bókin heitir 50 great curries of India. Þegar ég fór að fletta í henni tók ég eftir því að fremst var uppskrift af mjög einföldum karrý rétt fyrir þá sem vilja byrja rólega. Ég ákvað því að prófa þennan rétt, jafnvel þó að ég hafi nú alveg eldað indverskt karrý áður.
Uppskriftin er mjög einföld en þó eru nokkur atriði sem þarf að passa. Til að byrja með hitar maður olíuna í meðal hita og setur svo laukinn á pönnuna og leyfir honum að malla í 20-25 mínútur eða þar til hann er orðinn brúnaður. Það er mjög mikilvægt að passa upp á að elda laukinn rétt því hann hefur mikil áhrif á útkomuna af réttinum og hversu þykk sósan verður. Hvítlauknum og engiferinu er svo bætt við á pönnuna og þessu leyft að malla í eina mínútu í viðbót. Næst er kóríanderinu bætt við og hrært saman við og leyft að malla í mínútu til viðbótar. Restinni af kryddunum er svo bætt við og leyft að blandast saman við allt hitt í um 30 sekúndur. 200 ml af vatni er sett á pönnuna og þessu leyft að sjóða í 10 mínútur. Að lokum er tómötunum bætt saman við og þeim leyft að malla í 5 mínútur. Sósan er þá tilbúin nema hvað að það þarf að smakka hana til með salti og mögulega smá chilli dufti.
Þegar sósan er tilbúin er kjúklingnum bætt saman við ásamt 300 ml af vatni og þessu leyft að malla þar til kjúklingurinn er soðinn í gegn og sósan orðin aftur eins þykk og þið viljið hafa hana. Ég vil hafa sósuna frekar þykka þannig að ég leyfði þessu að malla í 30-40 mínútur áður en ég gæddi mér á þessu. Með þessu er gott að hafa hrísgrjón og naan brauð og jafnvel smá salat.
Fyrir þá sem vilja ekki hafa kjúkling í þessu er ekkert mál að skipta honum út fyrir 300 gr. lambakjöt, 2 flök af fiski (t.d. þorsk) eða 225 gr. af grænmeti en þá breytist magnið af vatni sem sett er í restina. Lambakjötið þarf 500 ml, fiskurinn 200 ml og grænmetið 400 ml. Einnig geta þeir sem vilja ekki bringuna af kjúklingnum skipt henni út fyrir 4 læri eða 6 leggi.
Skildu eftir svar