- Deig
- 400 gr. Hveiti
- 220 gr. kalt smjör
- Klípa af sjávarsalti
- 8 msk af ísvatni
- 1 egg
- Fylling
- 400 gr kjúklingur í bitum
- 1,5 blaðlaukur í bitum
- 1,5 laukur í bitum
- 160 gr sveppir
- 2 msk smjör
- 500 ml kjúklingasoð
- 2 msk steinselja
- 2 greinar timjan
- 2 msk hveiti
- 2 msk olía
- Salt og pipar
Ég hef alltaf gaman að því að prófa eitthvað sem er ekki beint á mínu comfort zone, svo ég sletti smá. Ég hef 1-2 reynt að búa til eitthvað úr smjördeigi og hef þá bæði prófað að búa til deigið sjálfur og einnig notað deig sem ég hef keypt. Þetta hefur tekists mis vel. Deigið sem ég hef keypt hefur verið þægilegt í meðförum en ekki eins gott og ég hefði viljað á meðan heimatilbúna deigið hefur strítt mér meira en verið bragðbetra.
Ég ákvað því um daginn að prófa að búa mér til kjúklingaböku frá grunni, þ.e. ég skildi gera deigið og allt saman. Og það var eins og oft áður, deigið stríddi mér aðeins en var afskaplega gott á bragðið. Ég er búinn að vera að velta þessu fyrir mér síðan ég gerði bökuna og er á því að uppskriftin sem slík er mjög góð en ég þarf bara að æfa mig betur í þessu. Einnig er ég á þeirri skoðun að miðað við bökuformið sem ég á þá þurfi ég að stækka uppskriftina og jafnvel alveg tvöfalda hana. Uppskriftin er því miðuð við það hvernig ég mun gera þessa böku næst.
En hefjum þá smjördeigsgerðina. Hveitið er sett í skál ásamt smjörinu í bitum. Það þarf að mylja smjörið saman við hveitið og því nauðsynlegt að sóða sig aðeins út. Þegar smjörið og hveitið hafa blandast sæmilega saman er vatninu bætt út í, eina matskeið í einu, og hrært í þessu með köldum hníf. Ég skellti hnífnum bara í frystinn á meðan ég var að mylja hveitið og smjörið saman. Þegar vatnið er allt komið saman við er deigið hnoðað saman og skipt svo í tvo jafna helminga sem eru flattir aðeins út og settir í plast og í kæli á meðan fyllingin er búin til.
Til að gera fyllinguna þarf fyrst að steikja kjúklingin á pönnu. Kjúklingurinn er svo settur til hliðar og blaðlaukurinn, laukurinn og timjanið sett á pönnuna í staðin. Þetta fær að malla í um það bil 4 mínútur eða þar til laukurinn er byrjaður að vera gagnsær. Sveppunum og steinseljunni er þá bætt við þessu leyft að malla áfram þar til allur vökvi úr sveppunum er gufaður upp. Sveppablandan er þá sett til hliðar og smjörið brætt á pönnunni. Hveitinu er svo hrært saman við smjörið þannig að úr verði smjörbolla. Það er mjög gott að leyfa smjörbollunni að malla í 1-2 mínútur til að ná úr henni biturleikanum úr hveitinu.
Kjúklingasoðinu er svo hrært hægt og rólega út í smjörbolluna og passið að hræra stöðugt svo sósan verði ekki kekkjótt. Þegar allt soðið er komið út í er þessu leyft að malla í 4 mínútur og gott er að hræra annað slagið í sósunni. Kjúklingnum og sveppablöndunni er svo bætt út í sósuna og öllu gummsinu leyft að malla í um 6 mínútur. Þegar fyllingin er að verða klár er svo gott að krydda hana með salti og pipar og magnið fer bara eftir smekk hvers og eins.
Þegar fyllingin er tilbúin er hún tekin af hellunni og leyft að kólna aðeins. Á meðan hún kólnar er smjördeigið tekið úr kælinum og annar helmingurinn tekinn og hann flattur út. Deiginu er svo komið fyrir í bökuformið en munið samt að smyrja bökuformið áður en deigið er sett í það svo deigið festist síður við það. Deiginu þrýst út í hliðarnar á forminu og fyllingunni er svo hellt ofan í formið. Að lokum er hinn helmingurinn af deiginu flattur út og það lagt yfir fyllinguna til að loka bökunni. Það er mjög gott að bleyta brúnirnar á deiginu aðeins með köldu vatni svo það opnist síður og brúnirnar eru svo klemmdar saman til að loka bökunni almennilega. Eggið er svo hrært saman og það borið á bökuna til að fá gullna áferð á bökuna þegar hún kemur úr ofninum. Einnig er mjög sniðugt að skera aðeins í lokið með hníf til að skreyta lokið.
Bakan er svo sett í 200° heitan ofn í um 40 mínútur eða þar til hún er orðin fallega brún. Með þessu hafði ég svo bara gott salat og ískalt kranavatn.
Skildu eftir svar