- 3 kjúklingabringur
- Salt og pipar
- ½ dl olía
- ½ kg choriza pylsa
- 1 dl hveiti
- 5 msk smjörlíki
- 1 stór laukur
- 8 hvítlauksgeirar
- 1 græn paprika
- 3 stilkar sellery
- 2,5 dl worchestershire sósa
- 1 poki fersk steinselja
- 1 líter vatn
- 5 nautakraftsteningar
- 1 dós tómatar
- 2 ferskir jalapeno
- 4 vorlaukar
Það er að verða hefð hjá mér og nokkrum félögum mínum að halda sérstakt Eurovision partý. Í þessu partý er gert svo til allt annað en að horfa á Eurovision. Þetta árið komum við saman með nóg af bjór, gosi og snakki og horfðum á þrjár (mis)góðar harðhausamyndir. Fyrst horfðum við á myndina Battleship, sem kom mér á óvart fyrir að vera ekki eins léleg og ég hélt, því næst horfðum við á fínasta hasar í myndinni The Baytown Outlaws og enduðum svo á að horfa á skítuga riddara í Ironclad. Þetta var s.s. eins langt frá Eurovision og hægt var að hafa það.
Ekki var hægt að fara í gegnum þrjár bíómyndir án þess að næra sig aðeins og þá dugar ekki bara snakk og bjór, þó maður fari langt á því. Ég ákvað því að elda eitthvað sem myndi passa við harðhausa þemað í myndunum. Gumbo varð fyrir valinu og eftir smá leit á netinu fann ég álitlega uppskrift sem ég betrum bætti svo aðeins. Þetta er réttur sem er bestur ef hann fær að malla í drjúgan tíma og svona réttir batna bara við upphitun.
Ég byrjaði á því að krydda bringurnar með salti og pipar og steikti þær svo í potti á báðum hliðum þar til þær voru brúnaðar og tók þær svo aftur úr pottinum. Choriza pylsan var skorin í mátulega þunnar sneiðar og brúnuð í pottinum og tekin svo úr aftur. Hvetinu er svo stráð í olíuna og 2 skeiðum af smjörlíki bætt út í. Eldað á meðal hita og hrært stanslaust þar til hveitijafningurinn er farinn að brúnast og þá tekið af hitanum.
Á meðan hveitijafningurinn er að kólna er laukurinn og paprikan skorin í bita ásamt sellerýinu. Potturinn er svo settur aftur á lágan hita og grænmetinu bætt úti ásamt hvítlauknum sem er marinn út í. Þessu er leyft að malla í 10 mínútur. Worchestershire sósunni, salti og pipar, og helmingnum af niðursaxaðri steinselju, stilkur og allt saman, er bætt út í og þessu leyft að malla í 10 mínútur í viðbót. Vatninu og kjötkraftinum er bætt við ásamt kjúklingnum og pylsunni. Suðunni leyft að koma upp og hitinn svo lækkaður og þessu leyft að malla í rólegheitunum í 45 mínútur. Tómötunum er bætt við og þessu svo leyft að malla í klukkutíma í viðbót. Rétt áður en þetta er borið fram er vorlauknum og meira af steinselju bætt við. Einnig er hægt að nota vorlauk og steinselju sem skreytingu.
Samkvæmt hefðinni er þetta borið fram með hrísgrjónum og ekki er verra að hafa líka eitthvað gott brauð. Sumstaðar er reyndar kartöflusalat haft með góðu gumbo.
Skildu eftir svar