- 4 kjúklingabringur
- 1 laukur, saxaður
- 1 dós sýrður rjómi
- 115 gr. rifinn ostur
- Kjúklingakrydd
- Cajun krydd
- 1 msk steinselja
- ½ tsk oregano
- ½ tsk svartur pipar
- ½ tsk salt
- 1 dós tómat sósa
- ½ bolli vatn
- 1 msk chili powder
- ½ græn paprika, söxuð
- 2 hvítlauksgeiri, saxaður
- 8 tortillur
- 1 krukka taco sósa
- 85 gr. rifinn ostur
Sterkur matur hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Bestur finnst mér indverskur og tælenskur matur en fast á hæla þeirra kemur svo mexíkóskur matur. Ég hef hins vegar ekki verið nógu duglegur við að elda mér almennilegan mexíkóskan mat. Oftast hefur það verið einfalt Taco eða Buritos. Ég ákvað því prófa að gera Enchiladas. Eftir smá leit fann ég uppskrift sem mér leist ágætlega á og það sem meira var þá þurfti ég ekki að breyta henni mikið til að hún væri eins og ég vildi.
Uppskriftin er frekar einföld en það tekur smá tíma að gera hana þannig að hún verði almennileg. Fyrst tók ég kjúklingabringurnar og stráði kjúklingakryddi og cajun kryddi á þær og steikti þær á pönnu þar til þær voru orðnar steiktar í gegn. Á meðan þær voru að steikjast saxaði ég niður laukinn, paprikuna og hvítlaukinn. Þegar kjúklingurinn var tilbúinn tók ég hann og skar hann niður í bita og setti hann á pönnuna aftur ásamt lauknum. Þetta fékk að malla þar til laukurinn var farinn að verða glær og þá var sýrða rjómanum og fyrri skammtinum af ostinum bætt við. Þegar osturinn var svo bráðnaður bætti ég paprikunni, hvítlauknum, kryddinu, tómatsósunni og vatninu og hrærði þar til allt var orðið vel blandað saman. Það er síðan alveg óhætt að leyfa þessu að malla aðeins á lágum hita en þá þarf að passa að hræra annað slagið.
Þegar fyllingin var tilbúin tók ég tortilla kökur og setti mátulegan skammt af fyllingunni á hann, braut svo saman og setti í eldfast mót sem ég var búinn að smyrja að innan. Þegar allar kökurnar voru komnar í mótið hellti ég sterkri taco sósu yfir og stráði svo restinni af ostinum yfir. Fyrir þá sem eru ekkert mikið fyrir mjög sterkan mat er um að gera að nota mildari taco sósu en þar sem mér finnst mjög gott að hafa svona rétti mjög sterka notaði ég sterkustu sósuna sem ég fann. Þetta fór svo í 175° heitan ofn í 20-25 mínútur eða þar til osturinn var orðinn vel bráðnaður. Það er síðan mjög gott að leyfa þessu að standa í um 10 mínútur eftir að þetta er tekið úr ofninum.
Með þessu er svo klassískt að hafa hrísgrjón og gott ferskt salat. Einnig er mjög fínt að hafa sýrðan rjóma og guacamole, tala nú ekki um ef þið notið sterka taco sósu því þá slær það á mesta styrkinn.
Skildu eftir svar