- 2 L vatn
- 250 gr gular baunir
- 1 laukur, saxaður
- 2 tsk timian
- 1,2 kg sérvalið saltkjöt
- 500 gr rófur, afhýddar og skornar í bita
- 500 gr kartöflur, afhýddar og skornar í bita
- 250 gr gulrætur, skafnar og skornar í bita
- 1 pakki beikonkurl
Rétt eins og með kjötbollurnar á bolludaginn hef ég haldið í þá hefð að elda mér saltkjöt og baunir á sprengidaginn. Ég læt það ekki draga neitt úr mér að ég sé venjulega að elda fyrir mig einan og elda því baunirnar í stærsta pottinum sem ég á og fæ út úr því baunir sem duga alveg leikandi 5-6 sinnum í matinn. Þetta kemur ekki að sök því eins og alþjóð veit eru baunirnar aldrei betri en þegar búið er að hita þær upp 1-2 sinnum.
Uppskrifin sem ég nota venjulega kemur úr Matreiðslubók Nönnu en í hana hef ég oft sótt ansi góðar uppskriftir. Ég held mig nokkurn vegin við uppskriftina sem gefin er upp nema að ég bæti beikon kurlinu við en Nanna hefur reyndar orð á því að það geti verið gott. Það er tveggja tíma process að elda góða baunasúpu þannig að ég hefst venjulega handa um leið og ég kem heim úr vinnunni og dunda mér við þetta þar til súpan hefur fengið að malla sæmilega lengi. Oftast nær dregst það alveg til klukkan að verða átta að ég byrji að smakka á súpunni.
Aðferðin við súpugerðina er á þessa leið. Ég byrja á því að saxa niður laukinn og set hann í stóran pott ásamt baununum, timían og vatni og leyfi suðunni að koma upp. þegar það er rétt byrjað að sjóða lækka ég hitann niður á miðlungshita og set lok á pottinn og leyfi þessu að malla í 45 mínútur. Því næst skelli ég öllu kjötinu út í vatnið ásamt beikoninu. Sumir vilja hafa baunirnar minna saltaðar og þá er um að gera að sjóða hluta af kjötinu bara í öðrum potti en þar sem ég vil hafa þær vel saltar set ég allt kjötið út í súpuna. Þetta fær svo að malla í 3o mínútur í viðbót.
Á meðan kjötið er að sjóða í pottinum tek ég rófurnar og kartöflurnar og afhýði þær og sker niður í mátulega stóra bita. Gulræturnar skef ég svo og sker líka í bita. Þegar kjötið er búið að sjóða nógu lengi bæti ég grænmetinu út í og leyfi því að sjóða í 30 mínútur. Ég kanna svo hvort grænmetið er soðið í gegn og ef svo er ekki fær súpan bara að malla þar til grænmetið er orðið klárt. Kjötið fiska ég svo upp úr pottinum og brytja niður og set út í súpuna á diskinum áður en ég borða þetta lostæti.
Skildu eftir svar