- Hráefni:
- 4 kjúklingabringur
- 2,5 dl hveiti
- 2 egg
- 4 dl mulið nachos
- 2 msk reykt paprika
- 1 msk sesam fræ
- Kjúklingakrydd
- Salt og pipar
- Olía til steikingar
- Sósa:
- ½ dós sýrður rjómi
- ½ piparostur
- Paprikuduft af hnífsoddi
- Örlítið salt
Undanfarið er ég búinn að vera í svolítið ítölsku stuði en mér fannst vera kominn tími á að breyta aðeins út frá því. Ég kem reyndar til með að heimsækja ítalíu aðeins aftur um næstu helgi þegar nokkrir félagar mínir ætla að kíkja til mín og snæða spaghetti og horfa á spaghetti vestra. En þar sem að ítalía fékk pásu þessa helgi ákvað ég að prófa að búa til kjúklingaschnitzel frá grunni. Ég hef keypt mér svoleiðs tilbúið annað slagið og steikt mér og þótt það ágætt en núna skildi s.s. þetta gert af alvöru.
Ég gat samt ekki gert þetta alveg hefðbundið. Einhverra hluta vegna fór ég að velta því fyrir mér hvort það gæti ekki verið sniðugt að skipta út raspinu fyrir niðurmuldar kartöfluflögur eða doritos. Úr varð að ég ákvað að hafa það nachos og greip poka af Doritos nacho cheese þegar ég fór að versla annað sem mig vantaði fyrir þessa máltíð.
Þegar heim var komið fór ég að huga að eldamennskunni. Ég byrjaði á því að setja slatta af doritos flögunum í plastpoka og muldi þær gróflega í höndunum og rúllaði síðan kökukefli yfir pokann til að fá þetta aðeins fínna. Ég setti síðan mylsnuna á disk og blandaði saman við hana 2 msk af reyktri papriku, 1 tsk af salti, slatta af kjúklingakryddi, pipar og 1 msk af sesam fræjum. Á annan disk blandaði ég svo saman hveiti, kjúklingakryddi, salti og pipar og á þann þriðja setti ég 2 egg og sló þau saman með gafli.
Ég lagði síðan góða lengju af sellófan á eldhúsbekkinn og lagði bringurnar ofan á það og passaði að hafa mátulegt bil á milli þeirra. Ég setti síðan aðra lengju af sellófan yfir bringurnar og lamdi þær með kökukeflunu (þar sem ég á ekki kjöthamar) þar til þær voru um hálf tomma á þykkt. Þegar bringurnar voru orðnar flatar kryddaði ég þær aðeins með kjúklingakryddi, salti og pipar.
Næsta skref var síðan að velta bringunum upp úr því sem var á diskunum þremur. Fyrst fóru þær í hveitið, því næst í eggin og að lokum fóru þær í snakkið. Ég hitaði svo olíu á pönnu og passaði mig að spara olíuna ekki. Bringurnar þurfa að nánast djúpsteikjast á pönnunni til að verða almennilegar. Bringurnar eru svo steiktar þar til þær eru orðnar fallega gullnar á báðum hliðum eða 4-5 mínútur á hvorri hlið. Ég stráði svo smávegins maldon salti yfir bringurnar þegar þær komu af pönnunni.
Ég bjó mér svo til kalda piparsósu til að hafa með þessu. Sósurnar verða reyndar ekki mikið einfaldari. Ég setti dós af sýrðum rjóma, dós af rjómaosti með svörtum pipar, smá papriku og örlítið salt í matvinnsluvél og blandaði þessu saman þar til þetta var orðið kekkjalaust. Að auki var ég með einfalt salat með þessu en í því var paprika, gúrka, lambhagasalat og svo smá salatdressing. Punkturinn yfir i-ið voru svo ofnsteiktar kartöflur sem ég fann uppskrift að hjá Ragnari Frey Ingvarssyni, lækninum í eldhúsinu.
Skildu eftir svar