- 1 pakki kjötfars
- 6-8 kartöflur
- 2 msk hveiti
- 1 msk kjötkraftur
- salt og pipar
- rauðkál
- grænar baunir
Frá því að ég flutti að heiman hef ég reynt að halda í þá hefð að elda mér kjötbollur á bolludaginn. Ég hef kosið að hafa það kjötbollur frekar en fiskibollur þar sem ég fæ yfirleitt fiskibollur í matinn í vinnunni. Þegar ég var yngri þá eldaði mamma yfirleitt fiskibollur í hádeginu og kjötbollurnar um kvöldið, þ.e. á meðan sú hefð var að vera með heitan mat bæði í hádeginu og á kvöldin. Það passar því mjög vel við þá hefð að ég skuli fá fiskibollurnar í vinnunni.
Það sem ég geri er að ég steiki kjötfarsbollurnar á pönnu án þess þó að hafa áhyggjur af því að steikja þær í gegn. Bollurnar set ég svo í pott og nægilegt vatn til að það fljóti vel yfir bollurnar. Þetta væri svo að sjóða á meðalhita í svona 20 mínútur. Þegar bollurnar eru soðnar veiði ég þær upp úr vatninu og bý til sósuna. Ég set c.a. eina matskeið af kjötkrafti út í soðið og hristi svo saman hveitið og vatn og helli út í til að þykkja sósuna. Smá matarlitur fer út í til að fá litinn og svo smakka ég sósuna til með salti og pipar.
Með þessu hef ég svo venjulegar soðnar kartöflur, rauðkál og grænar baunir. Þar sem ég get ekki alltaf verið eins og fólk er flest þá stappa ég kartöflurnar og bollurnar og hræri þessu svo öllu saman í einn graut en ég geri ykkur það ekki að setja inn mynd af því.
Skildu eftir svar