- Kjötbollur
- 1 kg hakk
- 3 dl rasp
- 2 msk fersk steinselja, söxuð
- 1,5 dl rifinn parmesan ostur
- 2 tsk salt
- ½ tsk pipar
- 1 tsk laukduft
- 1-2 egg, hrærð
- olía til steikingar
- Sósa
- 2 tsk ólífuolía
- 1 saxaður laukur
- 3 tsk hvítlauksmauk
- chilliflögur eftir smekk
- 3 dl rauðvín
- 2 dós tómatsósa
- 2 dós tómatar í teningum (roasted garlic)
- 2 msk fersk steinselja
- 3 tsk salt
- 1 tsk pipar
Þegar ég var yngri fékk var mamma stundum með hakk og spaghetti í matinn og þótti manni þetta alveg afskaplega gott. Þegar ég flutti svo að heiman fór maður að gera sér spaghetti bolognese en oftast nær keypti maður bara sósuna tilbúna og bætti svo bara hakki út í hana. Aldrei datt manni í hug að prófa hinn klassíska rétt spaghetti and meatballs, þ.e. fyrr en núna um helgina.
Ég er búinn að vera í svolítið ítölsku stuði undanfarið og mér datt einmitt í hug að gera eitthvað svona og gramsaði því á netinu og fann ansi áhugaverða uppskrift þar sem allt var gert frá grunni, bæði sósan og bollurnar. Þetta var frekar stór uppskrift en ég lét mig hafa það að elda hana eins og hún var enda er þetta kjörinn réttur til að frysta afganginn. Ég komst reyndar að því eftir á að sósan var helst til lítil miðað við magnið af bollum og spaghetti þannig að ég gef hana upp tvöfalda miðað við það sem ég gerði.
Þetta er mjög þægileg uppskrift að því leytinu til að maður getur í raun einbeitt sér að hverjum hluta fyrir sig og þarf ekki að vera að grauta í öllu í einu. Fyrst gerir maður bara kjötbollurnar. Maður setur bara allt hráefni í skál og blandar því saman. Því næst býr maður til bollur sem eru mátulega stórar. Mínar bollur voru líklega um 2 tommur í þvermál. Út úr þessu ættuð þið að fá á bilinu 16-24 bollur. Þegar bollurnar eru mótaðar er olía hituð á pönnu og bollurnar svo steikar á öllum hliðum og teknar svo til hliðar á disk með eldhúspappír til að taka við mestu feitinni.
Þegar búið er að steikja bollurnar er olíunni helt af pönnunni en alls ekki þvo pönnuna því gromsið sem situr eftir á henni er nýtt í sósuna. Ferk olía er hituð á pönnunni og laukurinn settur á hana og steiktur þar til hann er orðinn glær. Það tekur 5-10 mínútur. Hvítlauknum og chilliflögunum er svo bætt á pönnuna og þetta látið malla í 1 mínútu til viðbótar. Því næst er rauðvíninu bætt á pönnuna, hitinn hækkaður á hæsta styrk og þessu leyft að sjóða þar til mestallur vökvinn er gufaður upp. Á meðan rauðvínið sýður er nauðsynlegt að skrapa vel í botninn á pönnunni til að ná öllu gromsinu frá bollunum í sósuna.
Þegar að rauðvínið er að mestu búið að sjóða í burtu er tómötunum hellt út á pönnuna og kjötbollurnar settar út í. Sósan á svo að malla á lágum hita í 25-30 mínútur eða þar til bollurnar eru eldaðar í gegn. Það gerir samt ekkert til þó að þetta fái að malla lengur enda verður þetta bara enn betra eftir því sem sósan fær að sjóða lengur og kjötbollurnar verða ekki á nokkurn hátt þurrar. Þannig leyfði ég þessu að sjóða fyrst í 25 mínútur og setti síðan spaghettíið í pott og leyfði sósunni að malla áfram á meðan það var að sjóða. Sósan hefur líklega fengið að malla í um 50 mínútur áður en ég sagði þetta gott og fór að borða.
Þar sem þetta var nú spaghetti og kjötbollur var ég að sjálfsögðu með spaghetti með þessu og einnig hitaði ég mér hvítlauksbrauð. Það væri eflaust líka gott að hafa með þessu eitthvað létt salat. Og þar sem að ég þurfti að opna rauðvínsflösku til að nota í sósuna þá að sjálfsögðu skolaði ég þessu niður með glasi af þessu ágæta Sunrise Cabernet Sauvignon frá Chile.
Skildu eftir svar