- 3 kjúklingabringur
- 250 gr. penne pasta
- 4-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
- 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
- 1 laukur
- 1 rauð paprika
- 100 gr sveppir
- olía til steikingar
- 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
- 1 dós mascarpone ostur
- Óðals Gouda sterkur
- 1 tsk basilika
- salt og pipar
- kjúklingakrydd
Mér finnst ekki bara gaman að elda góðan mat eða borða hann. Ég hef lúmskt gaman af því að horfa á allskonar matreiðsluþætti og um tíma var BBC food svo til eina sjónvarpsrásin sem ég horfði á. Þar hafði ég sérstaklega gaman af því að horfa á þætti sem heita Hairy bikers en í þeim þvældust tveir kokkar um á mótorhjólum og kynntu sér matarmenningu ýmissa staða milli þess sem þeir elduðu girnilega rétti. Einnig hef ég alveg afskaplega gaman af því að þvælast um netið og lesa skemmtileg matarblogg, bæði innlend og erlend. Ég kíki mjög reglulega á bloggið hjá Ragnari Frey Ingvarssyni, lækninum í eldhúsinu, og svo uppgötvaði ég fyrir ekkert svo rosalega löngu síðan bloggið eldhússögur.com.
Það var einmitt á eldhússögum sem ég rakst á uppskriftina sem varð kveikjan að þessum rétti. Ég ákvað nánast um leið og ég sá uppskriftina að prófa hana en mig langaði samt eiginlega ekki að hafa bringurnar í heilu eins og uppskriftin segir til um. Ég fór því að velta því fyrir mér hvort það væri ekki sniðugt að breyta uppskriftinni aðeins. Ég vissi það að ég ætti smá penne pasta upp í skáp sem væri hægt að nota og upp úr því fæddist þessi hugmynd af ofnbökuðum kjúklingapastarétti með Cacciatore sósu. Þar sem að hugmyndin var fædd var ekki um annað að ræða en að prófa hana og útkoman var hreint ekki slæm þó ég segi sjálfur frá.
Það sem ég ákvað að gera var að sjóða, til að byrja með, penne pasta til að setja í botninn á eldföstu móti. Á meðan pastað var að sjóða fór ég í að útbúa sósuna. Ég steikti skallottulaukinn og hvítlaukinn á pönnu. Ég bætti svo lauk, papriku og sveppum á pönnuna og steikti aðeins áður en ég helti tómötunum út í. Þetta fékk svo að malla í um 15 mínútur. Rétt áður en 15 mínúturnar voru liðnar hrærði ég mascarpone ostinum saman við sósuna.
Kjúklinginn tók ég og skar niður í þunnar sneiðar og setti svo á heita pönnuna. Ég kryddaði hann á pönnunni með kjúklingakryddi, salti, pipar og smá basilikum og steikti þar til kjúklingurinn var að mestu orðinn hvítur. Ég helti honum svo ofan á pastað í eldfasta mótinu og helti svo sósunni yfir kjúklinginn og pastað. Ofan á það setti ég svo sterkan Óðals gouda ost og svo fór þetta í 200° heitan ofn í um 15 mínútur eða þar til osturinn var orðinn fallega gullinn.
Með þessu er svo mjög gott að hafa hvítlauksbrauð og gott salat.
Skildu eftir svar