- 3 sneiðar pylsumeistarabeikon
- 10 sneiðar skinka
- ½ pakki litlir sveppir
- 250 gr tagliatelle
- Sósan
- 2 bollar rjómi
- ½ bolli smjör
- ½ bolli rifinn barbagia
- ½ bolli rifinn mozzarella
- ½ bolli rifinn peccorino sardo
- ½ bolli rifinn terre brune
Það er orðið mjög skemmtilegt að vera áhugamaður um góðan mat í Reykjavík í dag. Sérverslunum með matvörur hefur verið að fjölga undanfarin ár og því er úrvalið af skemmtilegu hráefni alltaf að verða meira og fjölbreyttara. Ég hef áður skrifað um Pylsumeistarann, sem er með allskonar unnar kjötvörur eins og pylsur, skinkur og fleira, og Búrið, sem er með gríðarlega gott úrval af góðum ostum. Einnig eru hér verslanir með tælenskar vörur þar sem allt fæst í góða asíska rétti. Nýlega opnaði ítölsk sælkeraverslun á Laugaveginum og svona mætti lengi telja. Og ekki má gleyma Frú Laugu sem er með vörur beint frá bónda.
Einn af kostunum við þessar verslanir er að það verður auðveldara fyrir einstæðing eins og mig að versla inn. Í þessum verslunum fær maður bara það sem maður biður um og þarf en er ekki fastur í því að framleiðandinn ákveði hversu stórar pakkningar þurfa að vera til að vera sem hagkvæmastar. Þar fyrir utan er bara svo skemmtilegt að versla í þessum búðum því í þeim fær maður tækifæri til að spjalla við afgreiðslufólkið, fá hjá þeim ráðleggingar og upplýsingar um vöruna. Ég hvet því alla til að kíkja annað slagið í þessar búðir og skoða úrvalið.
En þá að rétti dagsins (sem var reyndar eldaður fyrir 2 vikum síðan en hefur ekki skilað sér inn fyrr en núna). Ég ákvað að prófa að elda einfalt ostapasta. Ég gat að sjálfsögðu ekki haft þetta of einfalt og því varð úr að ég hafði þetta fjögurra osta pasta. Í það notaði ég ferskan mozarella ost, barbagia sem er ostur frá Sardiníu, peccorino sardo sem er kindaostur frá Sardiníu og terre brune sem er, ef ég man rétt, frá Spáni.
UPPFÆRT – Agnes búrverji benti mér á það að terre brune er ítalskur og því fær hann hér með rétt ríkisfang.
Ég byrjaði á því að skera beikon og skinku í strimla og setti á heita pönnu. Síðan skar ég sveppi í fjórðunga og bætti á pönnuna. Þetta steikti ég þar til allt var orðið mátulega eldað, beikonið ekki of stökkt og sveppirnir eldaðir í gegn. Ég setti svo tagliatelle í pott og sauð samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
Á meðan pastað var að sjóða fór ég að undirbúa ostasósuna. Mesta vinnan í henni var að rífa niður ostinn. Ég setti svo rjómann og smjörið í pott og hitaði á meðal hita þar til að smjörið var bráðnað og hræði vel á meðan. Ostinum var svo bætt út í og hitinn lækkaður niður. Ég hrærði svo í þessu þar til allur osturinn var bráðnaður. þeir sem vilja geta svo bragðbætt þetta aðeins með salti og pipar.
Þegar pastað var tilbúið blandaði ég sveppunum, skinkunni og beikoninu saman við það og setti á disk. Sósunni helti ég svo yfir allt saman og skreytti aðeins með fersku oregano. Með þessu hafði ég heimagert hvítlauksbrauð sem ég hafði fundið á eldhússögur.com nema hvað að ég bætti osti ofan á það.
Skildu eftir svar