- 4 msk olía
- 25g smjör
- 4 laukar, gróft saxaðir
- 6 msk tikka masala paste (hægt að kaupa í búð eða nota uppskriftina hér fyrir neðan)
- 2 rauðar paprikur, skornar í stóra bita
- 8 kjúklingabringur, skornar í u.þ.b. 2,5 cm bita
- 2 x 400gr. dósir tómatar í bitum
- 4 msk tómat purée
- 2-3 msk mango chutney
- 150ml rjómi
- 150ml Hreint jógúrt
- Kóríander lauf til skreitingar
- Karrýmauk:
- 10 hvítlauksgeirar
- 1 stór hnúður af engiferrót
- 2-4 rauðir chilli
- 4 tsk cumin
- 4 tsk kóríander
- 2 tsk túrmerik
- 2 tsk reykt paprika
- 2 tsk garam masala
- fræ úr 8 kardemommubelgjum
Um daginn þvældist ég í Kringluna, sem væri svo sem ekki til frásögur færandi nema hvað að ég kíkti aðeins inn í Tiger. Þar rak ég aukun í pakka með kryddmauki. Meðal annars var hægt að fá Tikka Masala mauk og þar sem ég er mjög hrifinn af indverskum mat þá greip ég pakka af þessu til að prófa. Þegar ég fór að elda þetta sá ég mjög fljótlega að það væri að sjálfsögðu gáfulegast að reyna síðar meir að gera þetta sjálfur frá grunni þannig að ég fór að leita eftir Tikka Masala uppskriftum á netinu. Mjög fljótlega sá ég hvað þetta er í raun sáraeinföld eldamennska og stefnan var tekin á það að elda svona fyrir Lord of the Rings átveislu sem vinahópurinn var búinn að plana.
Uppskriftin sem ég fann miðaði við það að nota tilbúið tikka masala mauk en fyrir þá sem vildu gera það sjálfir fylgdi uppskrift af maukinu með líka. Ég gat ekki verið þekktur fyrir annað en að gera þetta alveg frá grunni og bjó því til maukið sjálfur. Að mínu mati var reyndar uppskriftin af maukinu heldur rýr þannig að ég ákvað að tvöfalda hana áður en ég setti hana inn í þessa færslu. Einnig hefði það mátt vera heldur sterkara fyrir minn smekk og því gef ég upp 2-4 chilli, allt eftir því hversu sterkt menn vilja hafa réttinn.
En þá að því hvernig kryddmaukið er búið til. Setjið allt hráefnið í karrýmaukið í matvinnsluvél og bætið smávegins vatni eða olíu saman við til að maukið blandist betur saman. Ég notaði sjálfur olíu til að gera þetta að góðu mauki. Maukið sem þið fáið út úr þessu geymist í allt að viku í ísskáp eða upp undir mánuð í frysti.
Þegar kryddið er tilbúið er ekkert annað eftir en að hella sér í það að gera sjálfan réttinn. Hitið olíuna og smjörði í stórum potti og setjið svo lauknum og smá salti út í pottinn. Þetta þarf að fá að malla í u.þ.b. 15-20 mínútur eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og gullinn. Bætið maukinu og paprikunni við og sjóðið í 5 mínútur. Bætið kjúklingnum saman við og hrærið vel í þessu til að kjúklingurinn fái vel af kryddinu á sig. Leyfið þessu að malla í tvær mínútur og setjið svo tómatana, tómat puréeið og um 200 ml af vatni út í (vatninu mætti sleppa). Setjið lok á pottinn og leyfið þessu að malla í 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það þarf að sjálfsögðu að hræra annað slagið í þessu á meðan kjúklingurinn eldast. Takið svo lokið af og hrærið mango chutney, rjóma og jógúrt saman við og leyfið því að hitna vel. Á þessu stigi er hægt að bæta kryddi saman við ef þetta er ekki nógu sterkt.
Samkvæmt uppskrifinni á þetta að vera tilbúið á þessu stigi málsins. Fyrir mér var hins vegar sósan í réttinu alltof þunn. Ég leyfði því réttinum að malla svolítið vel þegar hann var hitaður upp aftur í átveislunni þannig að sósan þykknaði svolítið. Það var svo smá afgangur eftir af því sem hitað var í veislunni sem ég hitaði svo upp nokkrum dögum seinna. Það var í raun ekki fyrr en eftir þessa upphitun númer 2 sem sósan varð eins og ég vil hafa hana og því kem ég til með að leyfa þessu að malla vel og lengi við lágan hita næst þegar ég elda mér þennan rétt.
Með þessu er svo alveg ljómandi gott að halda í hefðina og bera fram með þessu hrísgrjón og gott naan brauð.
Skildu eftir svar