- 450 gr lamb, skorið í þunnar ræmur eða litla bita
- 1 saxaður rauðlaukur
- 2 tsk hvítlauksmauk
- 3 lárviðarlauf
- ¼ tsk kanill
- 1 bolli tómatar í bitum
- 1-2 meðalstórar kartöflur
- ½ tsk cumin fræ
- 2 msk olía
- Karrýsósan:
- 1 tsk engifermauk
- 4 msk fiskisósa
- 2 msk tómat paste
- 1 msk kóríander
- 3 tsk cumin
- 1 tsk soyasósa
- 1-2 ferskir rauðir chilli, maukaðir
- 2 tsk chilliduft
- 1 msk púðursykur
- 2 msk limesafi
- ⅔ can kókosmjólk (restin geymd þar til í lokin)
Ég er búinn að vera alltof latur við að skrifa undanfarið enda er síðasta færsla á undan þessari frá því í október. Þetta kemur ekki síst til af því að ég hef hreinlega verið of latur við að elda mér eitthvað gott á þessum tíma. En þó hafa safnast saman nokkrar uppskriftir sem ég hef ekki sett inn og ætla ég að bæta úr því á næstu dögum. Svo fer líka að styttast í áramótin og þá má búast við færslu um forréttin sem verður boðið upp á í áramótaveislunni.
En snúum okkur að karrýinu. Fyrsta skrefið er að taka öll hráefnin í karrýsósuna og setja í matvinnsluvél og mauka það þar til allt hefur blandast vel saman. Það er svo sett til hliðar. Því næst er olían hituð á wok pönnu eða djúpri steikarpönnu. Laukurinn og hvítlauksmaukið er svo sett á heita pönnuna og steikt í u.þ.b. eina mínútu. Lambinu er þá bætt við og steikt í 1-2 mínútur. Þegar búið er að steikja kjötið er karrýsósunni bætt út í ásamt lárviðarlaufunum og kanilnum. Þessu er hrært vel saman og súðan látin koma upp. Ef sósan er of þykk er hægt að bæta 2-4 matskeiðum að vatni eða soði út í hana.
Þegar suðan er komin upp er hitinn lækkaður niður og karrýinu leyft að malla í rólegheitunum. Best er að setja lok á pönnuna og leyfa þessu að malla í 7-8 mínútur og hræra annað slagið í þessu. Kartöflunum og cumin fræjunum er svo bætt út í og þessu leyft að malla þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Það ætti að taka um 10 mínútur. Tómötunum er svo bætt út í og karrýinu leyft að malla í 5-7 mínútur í viðbót eða þar til allt er orðið vel eldað. Hitinn er svo minkaður niður í minnsta hita og afganginum af kókosmjólkinni bætt út í.
Best er svo að hafa hrísgrjón með þessu og mögulega eitthvað gott brauð.
Skildu eftir svar