- 1 msk olía
- 4-5 magez pylsur
- 1.5 bolli saxaður laukur
- 2 hvítlauksgeirar
- 2 bollar kjúklingasoð
- 1 dós tómatsósa fyrir chilli
- ½ bolli rjómi
- 250 gr. penne pasta
- ½ tsk salt og pipar
- 1 bolli fiore sardo dop ostur
- ⅓ bolli vorlaukur
Stundum verður eitthvað sem ég kaupi í matinn kveikjan að hugmynd að rétt. Það átti við um daginn þegar ég fór í Pylsumeistarann, eina af mínum uppáhalds verslunum, og keypti þar nokkrar Magez (eða Merguez, er ekki viss á stafsetningunni) pylsur en það eru Norður Afrískar lambapylsur með hvítlauk og chilli. Þegar ég var að smakka á þeim datt mér í hug að það gæti verið gott að nota þessar pylsur í pasta.
Ég fór því að leita og eftir stutta leit eftir spicy sausage pasta fann ég uppskrift sem mér leist vel á. Í þeirri uppskrift er reyndar verið að nota reyktar kalkúnapylsur en það væri lítið gaman ef maður færi alltaf algjörlega eftir þeim uppskriftum sem maður finnur. Það var því úr að ég ákvað að nota þessa uppskrift sem ég fann sem grunn í réttinn minn en notaði s.s. lambapylsur í staðin fyrir kalkúnapylsur. Einnig var talað um að nota einhverja ákveðna tegund af tómötum með chilli en þar sem sú tegund fæst ekki hérna þá keypti ég í staðin tomato sause for chilli frá Huntz.
Einnig var talað um í uppskriftinni að nota einhverja ákveðna tegund af osti en ég ákvað að kíkja í Búrið og kaupa þar einhvern ost sem væri með svipaðri áferð og parmesan. Stelpurnar í Búrinu mæltu með ostinum Fiore Sardo sem er kindaostur frá Sardiníu. Þessi ostur passaði alveg virkilega vel með sterkri pylsunni.
En þá að eldamennskunni. Ég byrjaði á því að setja olíu í pönnu á meðal hita. Pylsurnar og laukinn fóru svo á pönnuna og fengu að brúnast aðeins á pönnunni eða í um 4 mínútur. Næst var hvítlaukinn marinn í hvítlaukspressu og bætt á pönnuna og leyft að malla smá, svona um 30 sekúndur. Soðinu, tómötum, pasta, salti og pipar var næst bætt út í og hrært vel saman. Suðunni var svo leyft að koma upp og lok sett á pönnuna og hitinn lækkaður. Þessu er leyft að malla þar til pastað er orðið mjúkt eða um 15 mínútur. Pannan er svo tekinaf hitanum og hálfum bolla af osti hrært saman við. Pastað er loks sett í eldfast mót og restinni af ostinum stráð yfir og smátt skornum vorlauk dreift yfir allt saman. Þetta er svo bakað í ofni þar til osturinn hefur bráðnað og er farinn að brúnast.
Með þessu er svo upplagt að hafa hvítlauksbrauð og jafnvel smá salat.
Skildu eftir svar