- hryggur
- salt og pipar
- hvítlauksmauk
- rósmarin
- basilikum
- herbs de provance
- sósa:
- sveppa pakkasósa
- 25 gr. smjörlíki
- soð af hrygg
- Soð af grænum baunum
- rjómi
- sósulitur
Eitt það besta sem ég fékk sem krakki var hryggurinn hennar mömmu. Var þá stökk puran það sem heillaði mest og hefði maður nánast getað borðað hana eintóma. Samt hefur það einhvernvegin verið þannig frá því að ég flutti að heiman fyrir um 20 árum síðan að ég prófaði aldrei að elda mér hrygg. Að stærstum hluta til var það nú vegna þess að ég hefði þurft að kaupa heilan hrygg sem er náttúrulega alltof mikið í matinn fyrir mig einan. Þannig að ég lét mér nægja að fá stöku hrygg þegar ég var í heimsókn hjá þeim gömlu.
En um daginn rakst ég á hálfan hrygg í Hagkaup og var fljótur að grípa mér einn. Nú skildi loksins ráðist í það að elda hrygg. Þetta var mjög hentug stærð af hrygg, rétt um eitt kíló þannig að hann dugði alveg leikandi tvisvar í matinn. Þrátt fyrir að langa fyrst og fremst í gamaldags hrygg ákvað ég að prófa eitthvað aðeins öðru vísi heldur en ég var vanur og fór því aðeins að gramsa á netinu.
Eftir stutta leit fór að gerjast hjá mér hugmynd. Ég ákvað að skera niður með beininu og setja þar ofan í blöndu af hvítlauksmauki, rósmarin, basilikum og herb de provance. Ofan á hrygginn setti ég svo bara hefðbundið salt og pipar.
Hryggurinn fór svo í steikarpott og í ofninn í rúman klukkutíma eða þar til kjarnhitinn var kominn í 65°. Ég tók þá hrygginn út og fór að undirbúa sósuna. Í grunninn var sósan sveppasósa úr pakka. Ég hrærði innihaldi pakkans saman við um 25 gr. af bræddu smjöri og hellti svo soðinu af hryggnum saman við. Einnig tók ég soðið af grænum baunum og setti í sósuna og hrærði þessu vel saman. Því næst setti ég smá rjóma út í og 2 tsk af bláberjahlaupi. Til að fá sósuna svo aðeins dekkri setti ég smá sósulit. Sósan fékk svo að malla í smá stund.
Með þessu hafði ég svo rauðkál, grænar baunir, litlar gulrætur og brúnaðar kartöflur.
Skildu eftir svar