- 7-800 gr. kjúklingabringur
- 2 msk olía
- 3 laukar skornir í þunnar sneiðar
- 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 1 msk karrýduft, sterkt
- 1 msk hrásykur
- 2 tsk kóríanderfræ
- 200 ml sítrónusafi, nýkreistur
Síðustu 3 vikur eða svo er búið að vera brjálað að gera hjá mér í vinnu og á öðrum vígstöðvum. Þetta hefur komið mikið niður á eldamennsku hjá mér sem útskýrir hvers vegna hefur verið svona þögult hérna á blogginu. Meira að segja þegar ég hef eldað, þessu fáu skipti, hef ég ekki gefið mér tíma til að skrá það almennilega niður. Þannig eru t.d. 2 vikur síðan þessi réttur var eldaður en ég er núna fyrst að skrifa um hann. En vonandi fer þetta að breytast og eldamennskan og skrifin á þann tíma sem þau eiga skilið.
Þessi réttur kemur frá Suður Afríku og fann ég hann í Matreiðslubók Nönnu þegar ég var að leita mér að einhverju sniðugu til að elda. Þrátt fyrir að það taki um sólahring í heild sinni að elda hann er hann einfaldur í eðli sínu og væri alveg tilvalinn í útileguna en þá væri búið að útbúa kjötið áður en lagt væri í hann. En þá að uppskriftinni.
Kjúklingabringurnar eru skornar í bita, 2-3 cm á kant eða í 2 cm breiðar ræmur. Þær eru svo settar í eldfast mót. Olían er hituð í potti og laukurinn látinn krauma við meðalhita þar til hann er rétt farinn að taka lit. Þá er hvítlauk, karrý, sykri, kóríander og sítrónusafa hrært saman við, hitað að suðu og látið malla í 1-2 mínútur, en látið síðan kólna og hellt yfir kjúklinginn. Plast er breitt yfir og látið standa í kæli í sólahring.
Þá er útigrillið eða gillið í ofninum hitað. Ég notaði bara grillið í ofninum í þetta skiptið en ég þarf seinna að prófa þetta á útigrillinu. Kjúklingabitarnir eru teknir úr leginum og látið renna vel af þeim en síðan eru þeir þræddir á teina og grillaðir við meðalhita í 7-10 mínútur eða þar til þeir eru grillaðir í gegn. Snúið einu sinni. Gott er að bera þetta fram heitt með soðnum hrísgrjónum og súrsætu kryddmauki.
Skildu eftir svar