- 4 kjúklingabringur
- 2 paprikur ( rauð og græn)
- ½ blaðlaukur
- 4 hvítlauksgeirar
- 1 laukur
- 1 rauðan chili ( taka fræin úr)
- Olía til steikingar
- 1 dós saxaðir tómatar
- 1 - 2 teningar kjúklingateningar
- 2 tsk karrý
- 2½ lítri vatn
- 1 peli rjómi
- 1 bolli chili tómatsósa
- Lítil dolla af rjómaosti (t.d. piparost )
Einhverra hluta vegna gleymi ég því oft að súpur geta verið góður og hentugur matur. Oftar en ekki, þegar ég elda súpu frá grunni, enda ég með nægan afgang til að setja í frystinn og geyma til mögru áranna. Það er því eiginlega hálf furðulegt hvað maður eldar sjaldan súpur. En ég bætti úr því nú á dögunum. Ég rakst á áhugaverða uppskrift á Fókus vef DV og ákvað að láta vaða í að prófa uppskriftina. Ég breytti reyndar aðeins út frá uppskriftinni til að hún hentaði betur mínum smekk. Það sem ég gerði var að ég setti ríflega af Chilli tómatsósunni, líklega um 2 bolla, og setti síðan svolítinn slatta af chilli kryddi. Þannig varð súpan nægilega sterk til að hæfa mér en fyrir þá sem þola ekki mjög sterkan mat mæli ég með því að fylgja bara uppskriftinni. Svo leyfði ég súpunni að malla heldur lengur heldur en uppskriftin segir til um.
Aðferðin er á þessa leið: Kjúklingurinn er fyrst tekinn og skorinn í hæfilega stóra bita og svo steiktir upp úr olíu. Á meðan verið er að steikja kjúklinginn er hann kryddaður með salti og pipar. Þegar kjúklingurinn er klár er grænmetið brytjað niður og steikt í smá stund en þó ekki þannig að það steikist í gegn. Því næst vatnið sett í stóran pott. Ég var með 6 lítra pott og það var ekki mikill afgangur af því að hann dyggði. Kjúklingatengingarnir, chilli tómatsósan og karrýið er sett út í vatnið og það hitað að suðu. Þegar suðan kemur upp er grænmetinu, rjómanum og tómötunum bætt út í og þessu leyft að malla í u.þ.b. 10 mínútur á vægum hita. Kjúklingnum er svo skellt út í ásamt rjómaostinum og þessu leyft að sjóða áfram í alla vega 5 mínútur til viðbótar.
Sagan segir að það sé gott að setja rifinn ost, avókadó, sneið af lime og nachos út í súpuna ásamt slettu af sýrðum rjóma þegar hún er borin fram. Ég lét mér reyndar nægja að setja nachos og rifinn ost þar sem ég er ekkert hrifinn af avókadó og vil ekki láta sýrða rjómann milda kryddbragðið í súpunni.
Skildu eftir svar