- 4 msk engifer eða hvítlauks mauk
- 3 msk kóríander
- 2 tsk broddkúmen (e. cumin)
- Salt og nýmulinn pipar
- 1 tsk túrmerik
- 8 heilir hvítlauksgeirar
- 8 kardemommum belgir
- 1 kanelstöng
- 4 msk olía
- 1 tsk cayenne pipar eða 1 sterkur chilli pipar
- 700 gr beinlaus kjúklingur
- 1 stór laukur brytjaður
- 1 tómatur brytjaður
- 2 msk smjör (má sleppa)
- Heitt vatn
Eins og ég hef áður sagt hér á síðunni er ég afskaplega mikið fyrir indverskan mat. Það hefur hins vegar farið minna fyrir því að ég hafi eldað hann, þ.e. þangað til að ég byrjaði á þessu bloggi og fór að reyna að elda aðeins oftar og betur. Ég er núna búinn að elda indverska rétti tvisvar á mjög stuttum tíma og það á bara eftir að vera framhald á því.
Um síðustu helgi var það þessi dýrindis karrý kjúklingur sem ég eldaði og tókst hann alveg ótrúlega vel hjá mér. Rétturinn fékk að malla í drjúgan tíma áður en ég varð sáttur við það hversu þykk sósan var orðin og fyrir vikið var kjúklingurinn alveg mauksoðinn og þurfti ég varla að tyggja hann þegar ég borðaði þettta.
En það dugar ekki að lýsa þessu fyrir ykkur heldur verður uppskriftin að fylgja með. Ég byrjaði á því að skera kjúklinginn í mátulega litla bita og sett hann svo í skál ásamt salti, pipar, túrmerik, cayanne (eða chilli), cumin dufti og kóríander og blandaði því vel saman. Þetta lagði ég svo til hliðar á meðan ég byrjaði á sósunni.
Sósuna er best að elda við meðal hita eða jafnvel lágan og leyfa þessu þá að malla lengur því það gefur bestu útkomuna. Olían er hituð í djúpri og víðri pönnu, t.d. wok, og í hana er hvítlaukurinn, kardemommurnar (merjið þær aðeins fyrst til að opna þær) og kanelstöngin sett. Þessu er leyft að malla í heitri olíunni í nokkrar mínútur og gott er að hreifa aðeins við þessu á meðan. Ég fjarlægði svo hvítlaukinn og kardemommurnar svo ég myndi ekki bíta í það þegar ég borðaði réttinn en það þykir ekki mjög gott.
Ég bætti svo lauknum á pönnuna og leyfði honum að malla þar til hann var orðinn mjúkur og gullinn. Það er um að gera að taka sér nægan tíma í þetta því þetta gerir sósuna betri (passið bara að brenna ekki laukinn). Næst setti ég engifer og hvítlauksmaukið (ég blandaði því saman til helminga, 2 msk af hvoru) saman við og leyfði að malla við lágan hita í nokkrar mínútur og hræði vel í á meðan svo ekkert myndi festast við botninn á pönnunni.
Og þá var komið að því að bæta kjúklingnum út í ásamt smjörinu. Hann fékk að eldast þar til hann tók lit. Áfram hrærði ég vel í svo ekkert myndi festast við botninn. Eftir um 8-10 mínútur var svo kjúklingurinn kominn með fallegan lit og þá bætti ég tómötunum út í og leyfði þeim að malla í um 2 mínútur í viðbót. Að lokum setti ég heitt vatn á pönnuna þar til það flaut nánast yfir kjúklinginn og leyfði svo suðunni að koma upp. Þetta fékk svo að malla á tæplega meðal hita þar til sósan var orðin vel þykk. Uppskriftin segir að það taki um 25-30 mínútur en hjá mér var þetta farið að slaga hátt í klukkutíma.
Með þessu hafði ég svo soðin hrísgrjón og naan brauð.
Skildu eftir svar