- 450 gr. nautafile
- sesam olía til steikingar
- Marinering:
- 150 ml soya sósa
- 2 msk sesam olía
- 2 msk sake eða þurrt hvítvín
- 1 hvítlauksgeiri, þunnt skorinn
- 1 msk sykur
- 2 msk ristuð sesamfræ
- 4 vorlaukar í 2-3 cm bitum
- salt og pipar
Þegar menn tala um japanska matargerð hugsa flestir um sushi. Japönsk matarmenning er hins vegar mun fjölbreyttari en það og meðal annars kemur eitt besta nautakjöt heims (er mér sagt) frá Japan, Kobe nautið. Þegar ég var að fletta nýju fínu bókinni minni um asíska matargerð rakst ég einmitt á mjög áhugaverða uppskrift að nautakjöti sem ég varð bara að prófa.
Ég lagði því af stað í leiðangur á síðasta sunnudag og keypti það sem ég þurfti í þennan rétt og dreif mig svo heim til að koma kjötinu í marineringu. En fljótlega kom í ljós að málið var ekki svona einfalt. Mér hafði yfirsést að kaupa 2 hluti sem þurfti í uppskriftina, sake og vorlauk. Það að sake vantaði var svo sem ekkert stórmál þar sem í uppskriftinni er bent á að hægt sé að nota þurrt hvítvín í staðin. Vorlaukurinn var svo sem ekki heldur neinn show stopper. Hins vegar og það sem verra er yfirsást mér það lítla atriði að þetta þyrfti að marinerast í að lágmarki 3 tíma og klukkan var farin að slaga hátt í 7.
Þetta varð til þess að ég ákvað að fresta því að elda þetta þangað til daginn eftir og ég myndi þá nýta tímann og kaupa mér bæði sake og vorlauk. Þegar það sem upp á vantaði var komið í hús gerði ég mig kláran í eldamennskuna og fór að tína til hráefni en þá kom næsta áfall. Soya sósan mín var nánast búin. Aftur var þessu frestað og nýtti tímann til að kaupa mér soya sósu. Og þá var ekki aftur snúið. Kjötið fór í marineringu.
En að uppskriftinni. Til að byrja með þarf að skella kjötinu í frystinn og leyfa því að dúsa þar þangað til það er orðið nógu stíft til að þægilegt sé að skera það í mjög þunnar sneiðar. Sneiðarnar eru svo settar í skál eða eins og í mínu tilfelli í plastbox. Því næst búum við til marineringuna. Við setjum soya sósuna, sesam olíuna, sake-ið, hvítlaukinn, sykurinn og sesam fræin í skál og blöndum vel saman og setjum svo vorlaukinn út í. Marineringin er svo kryddað með salti og pipar eftir smekk. Marineringunni er svo hellt yfir kjötið og hrært svo í þannig að marineringin nær að þekja allt kjötið. Boxinu er svo lokað og látið standa í kæli í 3 tíma eða yfir nótt. Ég leyfði þessu að standa í alveg fullan sólahring.
Þegar kjötið er orðið marinerað er það tekið og mesti vökvinn þurkaður af því og það steikt svo á vel heitri grillpönnu eða wok í nokkrar sekúndur á hvorri hlið og borið svo strax fram á meðan það er heitt. Með þessu er svo mjög fínt að hafa góðan skammt af hrísgrjónum.
Skildu eftir svar