- 500-600 gr. kjúklingur skorin í c.a. 2 cm bita
- 2 matskeiðar soyja sósa
- 1 egg
- 2 matskeiðar hveiti
- 5-6 grænir chilli, smátt brytjaður
- Endar af 2 vorlaukur (ekki nauðsynlegt)
- 1 teskeið hvítlauksmauk
- salt
- ½ tsk hvítur pipar (eða eftir smekk)
- 1 tsk sykur
- 2 bollar kjúklingasoð (eða vatn)
- 1 matskeið olía
- Olía til djúpsteikingar
Ég hef lengi verið mjög hrifinn af austurlenskum mat og þá ekki síst indverskum mat. Því sterkari sem maturinn er því betra og hef ég vakið undrun og aðdáun hjá mörgum sem trúa því ekki hvað ég get borðað sterkan mat, þ.e. ekki fyrr en þeir sjá það. En það er ekki nóg að maturinn sé sterkur. Hann þarf að vera bragðgóður líka. Þannig er t.d. jungle curry á Banthai á Laugaveginum alveg skuggalega sterkur en að sama skapi hrein veisla fyrir bragðlaukana því hann er svo bragðgóður.
Þetta á ágætlega við indverska chilli kjúklinginn sem ég eldaði mér áðan. Rétturinn var vel sterkur en samt veisla fyrir bragðlaukana. Ég fann þessa uppskrift þegar ég var að googla eftir einhverju sniðugu sem ég gæti haft í matinn í vikunni og ákvað að prófa hana eftir að hafa rennt yfir uppskriftina. Þetta er í sjálfu sér ekki flókin uppskrift þó svo að það hafi verið aðeins meiri fyrirhöfn að elda þetta heldur en það sem ég hef eldað undanfarnar daga (og hefur ekki ratað inn á bloggið).
Það fyrsta sem þarf að gera er að blanda saman í skál 1 matskeið af soya sósu, 1 matskeið af hveiti, smá salti og egginu og setja svo kjúklinginn saman við og velta honum upp úr marineringunni þannig að hann verði vel þakinn í henni. Þessu er svo leyft að standa í 10-15 mínútur. Þegar kjúklingurinn er búinn að marínerast er hann djúpsteiktur þar til hann er orðinn fallega gullinn.
Hitið svo olíu í annarri pönnu, helst wok ef þið eigið hana til, og bætið við hvítlauksmaukinu og chilli og leyfið að malla í nokkrar sekúndur. Bætið tveimur bollum af kjúklingasoði út í og leyfið suðunni að koma upp. Því næst setjið þið sykurinn, hvíta piparinn, salt og restinni af soyja sósunni út í og svo steiktum kjúklingnum og leyfið þessu að malla í nokkrar mínútur. Á meðan þetta mallar takið þið restina af hveitinu og 1/2 bolla af vatni og hristið saman. Hveiti vatninu er svo hellt á pönnuna og hrært saman við þar til sósan þykknar. Þessu er svo leyft að malla í 2-3 mínútur.
Mjög gott er að hafa hrísgrjón og naan brauð með þessu og einnig að skreyta með vorlauknum. Ég hafði reyndar bara hrísgrjón með og hafði blandað túrmeriki og karrý saman við vatnið meðan þau suðu. Svona að lokum er rétt að benda þeim á sem ekki þola almennilega sterkan mat að fækka bara chilli piprunum niður í það magn sem hugnast ykkur.
Skildu eftir svar