- 2 kjúklingabringur
- 2 sneiðar skinka
- 3-4 sneiðar pepperoni
- 2 msk létt smurostur sveppa
- Hálf krukka tómat og chilli pesto
Eins og ég sagði frá í gær þá var að byrja heilsuátak í vinnunni hjá mér. Ég tók þá ákvörðun þegar þetta var kynnt að nú skildi ég taka mig á og fara að elda oftar og betur. Ég hitaði upp í gær með laxinum og svo í kvöld ákvað ég að prófa svolítið sem mér hafði dottið í hug þegar ég var að lesa í gegnum „matarbiblíuna“ sem við fengum senda í tengslum við þetta átak. Í henni var talað um hina ýmsa hollu rétti sem hægt væri að elda og meðal annars var stungið upp á kjúkling með pestó og svo í öðrum var talað um að nota smurost. Þannig að mér datt í hug að ég gæti kannski notað eitthvað af skinkunni og pepperóníinu sem ég átti inn í ísskáp og ákvað að gera fylltar kjúklingabringur með pestó.
Það sem ég gerði var að taka skinkuna og pepperóníið og skar það í litla bita, setti í skál með smurostinum og hrærði saman. Kjúklingabringurnar tók ég svo og snyrti aðeins til og skar svo inn í hliðina á þeim og setti fyllinguna þar inn í. Þessu var svo komið fyrir í eldföstu móti og ríflega af pestó svo smurt ofan á bringurnar. Þetta setti ég í 200° heitan ofn og hafði í rúmar 3o mínútur. Ég hef vanið mig á það undanfarið að elda kjúklingabringur með kjöthitamæli og þá passar að taka þær út þegar kjarnhitinn er um 82°.
Með þessu hafði ég svo smáræði af hrísgrjónum, salat og sósuna sem ég hafði með laxinum í gær en henni blandaði ég saman við hrísgrjónin.
Skildu eftir svar