- 6 matskeiðar sýróp
- 250 gr. smjör
- 330 gr. hafrar
- smá salt
Á gramsi mínu á internetinu rakst ég á uppskrift af því sem bretar kalla flapjacks en væri líklega hér á Íslandi bara kallað hafraklattar eða eitthvað álíka. Þetta eru mjög einfaldar hafrakökur sem fljótlegt er að baka og hafa svo sem meðlæti með skyrinu, jógúrtinu eða hverju því sem menn fá sér í morgunmat. Ekki skemmir heldur fyrir að þetta er næringaríkt og fullt af orku.
Eins og áður sagði er þetta mjög einföld uppskrift. Eina sem þarf er smjör, sýróp, hafra og smá salt. Byrjað er á því að bræða smjörið og sýrópið í potti. Á meðan það er að bráðna eru hafrarnir settir í skál og smá salt sett saman við þá. Bráðið smjörið/sýrópið er svo tekið og því hellt yfir hafrana og þessu svo hrært vel saman þar til hafrarnir eru vel þaktir í smjörinu og sýrópinu.
Næsta skref er svo að hella þessu í form sem búið er að smyrja að innan. Þegar allt er komið í formið þarf að slétta úr gumsinu til að fá sem jafnast yfirborð. Forminu er svo skellt í ofn sem búið er að hita í 180° og látið bakast í 20-25 mínútur eða þar til þetta er orðið gullið að ofan. Þegar klattarnir eru fullbakaðir eru þeir teknir út úr ofninum og skornir niður í mátulega stóra bita án þess að taka þá úr forminu. Þetta er svo látið kólna vel, jafnvel í ískap yfir nótt, og við það harðna klattarnir og verður auðveldara að ná þeim úr forminu. Svo er bara að njóta þeirra.
Skildu eftir svar