Cafe París er einn af þessum rótgrónu stöðum niðri í bæ sem maður fer eiginlega alltof sjaldan á. Þegar maður loksins fer þangað gengur maður yfirleitt út mjög sáttur við þá ákvörðun að hafa farið. Fyrir þá sem ekki vita þá er Cafe París á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis og snýr meðal annars út að Austurvelli. Þeim megin er hægt að sitja úti njóta góða veðursins þegar það er á sumrin og haustin.
Fyrir ekki svo löngu síðan skellti ég mér þarna inn þar sem ég var á röltinu niðri í bæ og hungrið var farið að segja til sín. Ég settist niður og eftir að hafa kíkt aðeins á matseðilinn ákvað ég að fá mér Tagliatelle með beikoni. Ég dundaði mér svo við það, á meðan ég beið eftir matnum, að fylgjast með þjónustunni á barnum og ég verð að segja að ég varð bara nokkuð impressed svo ég sletti nú smá. Þjónarnir komu nánast stanslaust að barnum að ná í drykki og þurftu nánast aldrei að bíða. Þau sem voru að afgreiða drykkina voru klár með nokkra stafla af bökkum á barborðinu og röðuðu af krafti á þá fyrir þjónana að sækja.
Eftir alveg mátulega langan tíma kom svo maturinn. Þetta var alveg mátulegur skammtur af Tagliatelle með beikoni og sveppum í parmesan sósu og með því var smávegins hvítlauksbrauð. Þetta bragðaðist alveg ágætlega en samt vantaði einhvern smá herslumun upp á að þetta væri alveg magnað. Ég vil meina að þarna hafi það eina í þjónustunni klikkað, þ.e. það var ekki boðið upp á pipar á matinn en hann hefði gert mikið fyrir þennan rétt.
Heilt yfir er þetta alveg fínasti staður til að fara á í mátulega stórum hóp og slaka á yfir köldum bjór og góðum mat. Þjónustan að langmestu leyti til fyrirmyndar, maturinn kannski ekki sá besti í bænum en góður engu að síður og andrúmloftið tiltölulega afslappað og notalegt.
Skildu eftir svar