- Pylsur
- Kartöflumús í pakka
- Pakkasósa
- Mjólk
- Ostur
- Pipar
Stundum er gott að hafa hlutina bara einfalda en þeir þurfa ekkert að vera verri fyrir vikið. Þannig var það hjá mér nú á dögunum. Ég var nýkominn austan af landi og ísskápurinn svo til tómur. Ég mundi eftir því að ég átti nokkrar gerðir af pylsum frá Pylsumeistaranum í frystinum og ákvað að taka tvær Biala pylsur út og gera það sem Bretinn kallar Bangers and Mash. Það er nú varla hægt að kalla þetta uppskrift hjá mér þar sem megnið af því sem notað var í þessa máltið kemur úr pakka. Samt sem áður setti ég nú mitt handragð á þetta þannig að þetta er ekki alveg eins og það kemur venjulega af kúnni.
Þetta var allt saman mjög einfalt í framkvæmd. Pylsurnar steikti ég á pönnu og á meðan þær voru að steikjast gerði ég mig kláran í að gera kartöflumús úr pakka eða eins og ég vil kalla hana, pakkamús par exellence. Þegar ég bý til pakkamús nota ég meira af mjólk heldur en gefið er upp á pakkanum og stundum nota ég mjólk engöngu í staðin fyrir vatn. Ég set líka svolítið af sykri í músina því ég vil hafa hana aðeins sæta. Í þetta skiptið prófaði ég líka að setja svolítið af rifnum pizzaosti saman við ásamt svolítið af pipar. Útkoman úr því varð alveg fínasta kartöflumús þó hún kæmi úr pakka.
Ég ákvað svo að hafa lauksósu með þessu og þar sem að þetta var óttaleg letimáltið þá var hún bara gerð úr pakka og samkvæmt leiðbeiningunum nema að ég notaði soðið af grænum baunum í bland við vatn í sósuna. Þar sem ég var búinn að opna baunadósina til að nota soðið í sósuna hafði ég að sjálfsögðu baunir með pylsunum.
Skildu eftir svar