Ég fór í smá grillpartý hjá vinafólki mínu um helgina. Við höfðum þann háttinn á að hver og einn kom með fyrir sig á grillið og ákvað ég að hafa þetta bara einfalt og keypti mér hamborgara.
Þar sem ég er nú kannski ekki beint þekktur fyrir að fara alltaf auðveldustu leiðina ákvað ég að fyrst ég væri nú að fara að grilla hamborgara þá væri kannski best að gera þetta almennilega. Ég gerði mér því ferð í Kjöthöllina á Háaleitisbraut og fjárfesti þar í tveimur 140 gr. hamborgurum. Hamborgararnir hjá Kjöthöllinni er alveg fyrirtak og mæli ég heilshugar með þeim. Á meðan ég var að bíða eftir að vera afgreiddur rak ég augun í bernaisesósu úr Red Roy vörulínu Kjöthallarinnar og ég stóðst ekki mátið að grípa eina flösku af henni með.
En til að gera góðan borgara er ekki nóg að vera með kjötið, brauðið og bernaisesósuna þó maður fari reyndar ansi langt á því. Ég kom því við í Nóatúni á heimleiðinni og keypti þar salat, rauðlauk, rauða papriku, sæta kartöflu og beikon. Heima átti ég síðan krukku af súrum gúrkum og Aggi félagi minn greip svo með sér Jack Daniels BBQ sósu og einhverskonar relish með engiferi. Nú skildi raðað saman í lúxusborgara.
Þegar í veisluna var komið tók ég sætu kartöfluna og skar hana niður í sneiðar, smurði með ólífuolíu og smellti þeim svo á grillið. Ég leyfði þeim að malla þar í smá stund og gerði grænmetið klárt á meðan, þ.e. sneiddi laukinn og paprikuna niður í skífur. Svo þegar kartöflurnar voru svo gott sem tilbúnar skellti ég borgurunum á grillið og beikoninu á efri grindina á grillinu. Ég sníkti svo út smá ost til að setja á borgarann þegar ég snéri honum við og eftir smá stund var svo allt orðið grillað og gott.
Stærsta verkið var svo að raða þessu gúmmelaði saman. Ég setti smá relish á neðri helming brauðsins og setti svo salatið, 1 sneið af lauk og annað eins af papriku þar ofan á. Ofan á það fór svo smá BBQ sósa og svo kom borgarinn sjálfur. Á borgarann setti ég svo beikonsneiðar tvær og svo bernaisesósu. Efst setti ég svo slatta af súrum gúrkum og lokaði svo með efri hluta brauðsins.
Útkomuna úr þessu má svo sjá á myndinni sem fylgir færslunni en myndina fékk ég lánaða frá Guðnýju Þorsteinsdóttur en hún náði betra sjónarhorni en ég nennti að ná á símann minn fyrst ég gleymdi myndavélinni heima.
Skildu eftir svar